139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að með lögum nr. 44/2005 var uppskiptingarheimild samkeppnislaga sem þá var í gildi felld út úr lögunum vegna þess að hún þótti ganga of langt. En við meðferð málsins höfum við tekið eftir því, og það kemur fram í umsögnum, að sú uppskiptingarheimild sem þar var var ekki eins matskennd og ekki jafnvíðtæk og sú heimild sem lögð er til í þessu frumvarpi. Ég stend því við mína fullyrðingu um það að með þessu frumvarpi sé verið að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækustu heimildir sem fram hafa komið í íslenskum samkeppnisrétti fram til þessa.

Ég verð að ítreka fyrirspurn mína til hv. þingmanns vegna þess að mér finnst mikilvægt að við fáum einhverja leiðsögn um það á hvaða sviðum hv. þingmaður, sem mælir fyrir nefndaráliti og talar fyrir því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar, telur að þessum valdheimildum verði beitt. Hér eru nefnd fjármálafyrirtækin eða fyrirtæki sem eru inni á gafli hjá fjármálafyrirtækjunum og ég geri ráð fyrir að séu flest í söluferli eða muni fara í söluferli. En ég þarf að fá að vita það nánar frá hv. þingmanni á hvaða sviðum hún telur að þessari valdheimild, þessari miklu íhlutun, verði beitt. Verður það á matvörumarkaði? Verður það í fluginu? Verður það einhvers staðar í landbúnaðinum? Eða hvar? Sér hv. þingmaður það fyrir sér að heimildinni verði t.d. beitt á þeim mörkuðum þar sem ríkið er í samkeppni við einkaaðila? Þá er ég kannski með Ríkisútvarpið í huga sem er í samkeppni við einkaaðila sem kveinka sér mjög undan þeirri samkeppni.