139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

álögur á eldsneyti.

[10:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Það er álitamál, hæstv. forseti, hvort um er að ræða hækkanir eða ekki. Það er auðvitað um það að ræða að verið er að hækka krónutölu í því frumvarpi sem við erum að ræða, ráðstafanir í ríkisfjármálum, og ég held að allir séu sammála um að það frumvarp muni hafa ákveðin verðlagsáhrif. Það er eitthvað til að miða við í þessu sambandi. Þarna er um að ræða hækkanir sem í sjálfu sér eru ekki háar í krónum talið en allt þetta litla, hóflega og smálega sem hæstv. ráðherra var að vísa til safnast saman. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra nefndi kolefnisgjaldið þá er auðvitað þar um að ræða raunhækkun á álagningu á eldsneyti vegna þess að það er ekki svo að við upptöku kolefnisgjalds í fyrra eða hækkun þess nú sé verið að taka út aðra skatta á móti, (Forseti hringir.) þetta er bara viðbót á þá gjaldaflokka sem þar um ræðir. Þarna er því um aukna skattheimtu að ræða.