139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (frh.):

Forseti. Ég vænti þess að þetta hádegisverðarhlé hafi nýst mönnum til góðra verka og að hv. alþingismenn mæti endurnærðir og fullir styrks til að takast á við þau erfiðu vandamál sem við er að glíma á sviði ríkisfjármála. Það gerist í svona hléum að maður fær ýmsar frásagnir í eyrun, sem byggja mann upp og bæta af fróðleik, og eina slíka heyrði ég sem vel er við hæfi að vitna í. Ég segi á þessum tímamótum í ræðu minni sömu orð og Ólafur heitinn Thors: „Æ, hvar var ég nú staddur í dósa?“ — Ég læt fróðari mönnum að elta uppi við hvaða tækifæri þau fleygu voru sögð.

Ég var þar staddur í ræðu minni að ég var að fjalla um efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna og rekja gang þeirra mála. Við höfum í þrígang á síðastliðnum tveimur árum, allt frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við, lagt fram tillögur sem við teljum horfa til heilla við þau vandasömu verkefni sem við er að glíma. Ég tel rétt á þessum tímapunkti að fjalla örlítið um þá stöðu sem við okkur Íslendingum blasir í ljósi þeirra upplýsinga sem berast um afkomu og getu okkar til að takast á við vandasöm verkefni. Ég nefndi hér áðan að allar spár benda til þess að samdrátturinn sé dýpri en menn reiknuðu með og taki lengri tíma að vinna sig upp úr honum. Ég tel mig hafa fært fyrir því rök að aðgerðir sem gripið er til í fjárlögum ársins 2009, 2010 og í boðuðum aðgerðum í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 flýti ekki fyrir þessum bata, þvert á móti hneppi þau ýmis atriði í þjóðarbúskapnum í enn meiri fjötra en hingað til hefur verið.

Það kemur ágætlega fram í II. kafla í nefndaráliti okkar, sem ber yfirskriftina Breyttar þjóðhagsforsendur og áhrif þeirra á fjárlög, að við höfum töluvert miklar áhyggjur af þessum atriðum og vitnum þar í ágætt nefndarálit fulltrúa okkar sjálfstæðismanna í efnahags- og skattanefnd, þeir hafa tekið saman mjög vandaða greinargerð og umsögn við fjárlagafrumvarpið. Enn fremur er þar vitnað til ýmissa spáaðila sem hafa skoðanir og leggja sig niður við að fylgjast með þróun efnahagsmála hér á landi. Það er vægast sagt þannig mat að það ber að taka alvarlega. Ef svartsýnustu spár rætast mun það þýða að við þurfum að taka enn meira til í ríkisbúskapnum og því ætlum við að forsendurnar sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu séu ekki nægilega vel ígrundaðar, sérstaklega að því sem lýtur að tekjuskatti einstaklinga. Við teljum miklum vafa undirorpið hvort þau áform náist sem þar er stefnt að, sérstaklega þegar haft er í huga hvernig hann er samsettur í dag. Það er augljóst af álagningarskrám frá skattstjóra að tekjuskatturinn stafar í æ ríkari mæli frá einhvers lags formi tekna utan við venjulegar launatekjur úr atvinnulífi, þ.e. við erum að horfa til greiðslna tryggingastofnana, greiðslna úr lífeyrissjóðum, þar með talið úr séreignarsjóðum, séreignarsparnað o.s.frv. Þetta er að verða æ stærri hluti af þeim grunni álagningar sem tekjuskattur einstaklinga leggst á. Það er fyrirkvíðanlegt að ekki sé hærra hlutfall í skattinum eða vaxandi af atvinnutekjum fólks.

Ég tel líka nauðsynlegt við þessa umræðu að gera örlitla grein fyrir sýn okkar á það hvernig á útgjaldahlið fjárlaga er tekið í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Við horfum til þess aga sem við þessar aðstæður þarf að hafa, þ.e. menn verða að draga úr ríkisútgjöldum og skapa einhvern vöxt á þann veg að þeim ákvörðunum sem stjórnvöld setja á dagskrá sé fylgt eftir af miklum aga og af mikilli ákveðni. Því miður sjáum við þess ekki stað við vinnuna við það grundvallarplagg sem fjárlög íslenska ríkisins eru.

Í tvígang hefur það gerst, núna í seinna skiptið við fjárlagafrumvarp ársins 2011, gerðist enn fremur þegar fjárlög ársins 2010 voru lögð fram, að einstakir ráðherrar, á fyrstu dögum eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram, hafa hlaupist undan merkjum og hafa þar með leitt flótta stjórnarliða frá eigin tillögum. Á síðasta ári kom þetta upp varðandi orku- og auðlindaskatta þegar iðnaðarráðherra kannaðist ekkert við þau áform sem þar voru uppi. Nú gerist þetta þegar hæstv. heilbrigðisráðherra dregur í land varðandi þær tillögur sem ræddar voru a sviði heilbrigðismála. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra af því að losarabragur við þessi verkefni, erfið verkefni á sviði hagræðingar í ríkisrekstri, mun auka kostnað og greiðslu vaxta af lánum á þeim tafatíma sem skapast við það að reyna að ná markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum.

Ég vil enn fremur nefna það sem ég og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd höfum getið um hvað varðar vinnulagið við fjáraukalögin. Það er hvorki hv. fjárlaganefnd né hæstv. ríkisstjórn til sóma hvernig það bar að, þau stóru mál sem þar voru lögð fram á síðustu stundu. Við eigum skilyrðislaust að geta unnið öðruvísi en þar gaf að líta.

Ég vil nefna eitt atriði sérstaklega varðandi aga og vinnubrögð. Nú liggur fyrir, og hefur legið fyrir í langan tíma, að á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er að gera breytingar á Stjórnarráðinu, sameina ráðuneyti, fækka þeim og fleira því um líkt. Um þetta eru skiptar skoðanir og það er ósköp eðlilegt. En hitt er grundvallaratriði að við slíkar stjórnkerfisbreytingar komi fram tillögur um það í fjárlögum íslenska ríkisins og í tillögugerð ríkisstjórnarinnar þegar fjárlaganefnd tekur fyrir hönd Alþingis við tillögum hennar um fjárlög næsta árs.

Nú eru ekki margir dagar eftir af þessu þingi, þingdagar. Samkvæmt starfsáætlun er gert ráð fyrir að þingið ljúki störfum 17. desember. Enn hefur Alþingi ekki séð tillögur fjárlagafrumvarpsins, hvernig sameinuð stjórnsýsla, sameinuð ráðuneyti, líta út. Við höfum ekki enn fengið yfirsýn yfir það hvernig stjórnsýslan verður í fjárlögum ársins 2011. Þetta er í mínum huga ekki viðunandi. Alþingi á ekki að þurfa að leggja í þá vinnu. Alþingi á að taka við frumvarpinu eins og menn gera ráð fyrir að það komi fullbúið út úr afgreiðslu þingsins. Auðvitað er alltaf fyrirvari á því hvernig menn geta breytt og tillöguréttur og meðferðarréttur Alþingis á fjárlagatillögu ríkisstjórnar er alger. Engu að síður er krafan um vinnulagið sú að frumvarpið komi þokkalega fullbúið í hendur Alþingis, en ekki þurfi allsherjaruppstokkun á því eins og raun ber vitni varðandi það frumvarp sem er til meðferðar núna. Fyrir utan þær miklu breytingar sem gerðar eru við 2. umr. er ljóst að það verður gríðarlegt þingskjal sem verður lagt fram við 3. umr. sem á að taka á þessum breytingum. Ég fullyrði að þótt þingmenn séu allir af vilja gerðir muni flestir þeirra eiga í miklum erfiðleikum með að fá heildarsýn og yfirsýn yfir þær breytingar sem til stendur að gera, ekki endilega fjárhagslega heldur að gera sér grein fyrir því hvernig verkefni flytjast á milli málaflokka.

Það liggur fyrir að stærstu breytingarnar sem verið er að gera frá frumvarpinu sem var lagt fram í október og til þeirra tillagna sem hér liggja fyrir eru á sviði málefna fatlaðra. Þar er verið að flytja gríðarlega mikilvægan málaflokk frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Ég fagna þeim áfanga. Ég tel að sá málaflokkur eigi til muna betur heima í umsýslu sveitarfélaga en nokkurn tímann ríkisins. Í öðru lagi er um gríðarlega miklar breytingar að ræða sem leiða af breytingum á forsendum frumvarpsins að því er lýtur að spá um þjóðhagsstærðir, spá Hagstofunnar í þessu tilfelli um þróun þjóðhagsstærða. Við horfum til breytinga annars vegar á tekjuhlið fjárlaga sem nemur u.þ.b. 6,1 milljarði í samdrætti tekna sem dreifist yfir þó nokkra liði í tekjugrein fjárlaga. Stærsta einstaka breytingin er væntanlega varðandi tekjuskatt einstaklinga en í hinn stað sjáum við líka töluverðar breytingar á gjaldahliðinni. Stærstar eru þær sem lúta að framlagi ríkissjóðs í Atvinnuleysistryggingasjóð en gert er ráð fyrir að greiðslur þar inn lækki sem nemur u.þ.b. 2,4 milljörðum kr. Þarna eru því stórar stærðir að flæða á milli frumvarpsins eins og það kom fram í október og þeirra tillagna sem nú liggja fyrir.

Ef við skoðum hins vegar einstakar tillögur og einstakar breytingar er augljóst að verið er að gera ótrúlega margar breytingar til gjalda og útgjaldaauka á gjaldahlið fjárlaga. Ég treysti mér ekki til að fullyrða hversu margar þær eru en þær skipta tugum. Fjárhæðir til útgjalda má áætla að séu einhvers staðar á bilinu 8–9 milljarðar og þar á móti kemur lækkun gjalda sem er borin uppi af tiltölulega fáum liðum. Burðurinn í því eru í fyrsta lagi 9,7 milljarðar í málefnum fatlaðra. Við erum að tala um rúma 3 milljarða til lækkunar á frumvarpinu á lið sem ber heitið Ríkisábyrgðir. Við erum að ræða breytingar á framlögum vegna öldrunarmála upp á 2–3 milljarða. Atvinnuleysisbæturnar eins og ég gat um 2,3–4 milljarðar. Fjármagnstekjur ríkisins til sjálfs sín eru að lækka um 400 milljónir og vaxtagjöldin eru að lækka um tæpa 1,5 milljarða.

Á útgjaldahliðinni, eins og hv. formaður fjárlaganefndar gerði ágætlega grein fyrir, er verið að gera breytingar á sviði heilbrigðismála og draga til baka að hluta til þær gríðarlegu skerðingar sem fyrirhugað var að fara í á málefnum heilbrigðisstofnana. Sömuleiðis er verið að draga til baka allnokkrar skerðingar á sviði lögreglumála og framhaldsskóla.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni einn lið sem lýtur að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar er verið að setja inn allnokkra fjárhæð, u.þ.b. 2 milljarða kr., sem stafar af tveimur ástæðum sérstaklega. Í fyrsta lagi er horfið frá fyrirætlunum í fjárlagafrumvarpi hvað það varðar að skera húsaleigubætur niður við trog. Það lá fyrir að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, að teknu tilliti til þeirra fjárhæða sem ríkissjóður hafði lagt inn og viðbragða sveitarfélaga við því, yrðu húsaleigubætur skertar um rúmlega 1 milljarð. Þær aðgerðir hefðu að óbreyttu rústað húsaleigubótakerfinu. Þar sem bróðurpartur skjólstæðinga þess er með tekjur undir 2 milljónum á ári, hefði þetta verið mjög ill gjörð gagnvart þeim þjóðfélagshópi sem þar á undir högg að sækja og þarf að sækja í þennan flokk. Ég fagna því að horfið er frá þessum þætti en legg hins vegar áherslu á að þessa þætti almannatryggingakerfisins, húsnæðisbætur ásamt vaxtabótum og öðru þvíumlíku, þarf að endurskoða. Það er alveg ljóst að í þessu eru ákveðnar holur og gildrur sem fólk getur auðveldlega fallið í. Ég vil undirstrika það álit, sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, að það beri að leggja í þá vinnu að endurskoða þessa þætti.

Hinn þátturinn í jöfnunarsjóði lýtur að fjárhagsstöðu fjárhagslega illa staddra sveitarfélaga. Þar er ætlunin að bæta aðeins í, að mig minnir um 700 millj. kr. Það er að mínu mati vel boðið og vel gert hjá ríkissjóði við þessar aðstæður og er í mínum huga ákveðið sannindamerki um að á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldsins ríki ágætur trúnaður um það og skilningur á því að þörf sé á því að sveitarfélögin og ríkisvaldið taki sameiginlega á og reyni að standa vörð um þá grunnþætti í íslenskri velferðarþjónustu sem allir vilja verja.

Einnig er dregið í land varðandi fyrirhugaða skerðingu á Fæðingarorlofssjóði en svo vantar stór atriði inn í fjárlögin sem ekki hafa verið rædd, og við sjáum ekki fyrir með hvaða hætti verður tekið á því. Ég vil nefna þau og gera í örstuttu máli að umtalsefni hér.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að lánsfjárgrein fjárlaga er órædd í fjárlaganefnd. Í mínum huga er það allsendis ótækt að fjárlagafrumvarpið komi til 3. umr. og afgreiðslu án þess að lánsfjárgreinin verði rædd í fjárlaganefnd. Þar eru gríðarlega stórar stærðir og nauðsynlegt fyrir fjárlaganefnd og þingheim að skilja þær færslur sem þar eru á ferðinni. Það hefur verið fljótaskrift á þessu, skiljanlega, um áramótin 2008/2009 var allt á iði og hruni og menn sáu ekki út úr augum fyrir verkefnum. En það er engin afsökun fyrir því lengur að mínu mati að gefa sér ekki tíma til að fara vandlega yfir þennan þátt.

Sömuleiðis eru stór mál sem lúta að útfærslu á fjárhagslegri aðkomu eða fjárhagslegri fyrirgreiðslu ríkissjóðs varðandi skuldamál heimilanna. Ekki er með neinum hætti tekið á því í þeim tillögum sem liggja fyrir. Jafnframt vil ég leyfa mér að nefna umræðu sem fór fram í gær um málefni Íbúðalánasjóðs. Það liggur fyrir að hann mun þurfa aukið fé á árinu 2011. Því er ekki mætt í þeim tillögum sem liggja fyrir og bíður væntanlega. Ég nefni það líka sérstaklega sem kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar, í framsögu hennar. Þar var boðað að tekin yrðu upp mál og hugsanlegar skerðingar á fjárveitingum til Isavia. Hér eru eflaust einhver fleiri slík mál sem koma til umræðu og íhugunar milli 2. og 3. umr. þannig að þar geta leynst ýmsir þættir sem eiga eftir að koma fram.

Loks vil ég nefna gríðarlega stórt mál sem Alþingi Íslendinga hefur eytt mjög miklum tíma og kröftum í, sem hvergi er nefnt á nafn í tillögum eða jafnvel greinargerðum með fjárlagafrumvarpinu sjálfu, en það er jólagrýlan eða jólakötturinn, hvað svo sem menn vilja kalla það, Icesave-samningar. Þetta hefur komið fram á þessum tíma undanfarin ár, einokað umræðuna í þingsal. Ekki er stafur á bók um það mál í gögnum sem lúta að fjárlagafrumvarpinu þegar vitað er að ætlan ríkisstjórnarinnar er að koma með það inn í þingið nú á allra næstu dögum. Væntanlega gera menn þá einhverjar ráðstafanir til að taka á því í tillögugerð fyrir 3. umr. ef vilji stjórnarmeirihlutans stendur til þess að leggja byrðar á íslenska skattgreiðendur tengdar þessu máli.

Heildardæmið lítur þá þannig út, sem greinir í fylgiskjali með nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, að verið er að gera breytingar til hækkunar á skatttekjum upp á 11,3 milljarða og útgjöldum upp á 13,2 milljarða. Mismunur á þessu eru rétt rúmir 2 milljarðar sem koma fram í bættum jöfnuði. Ég lýsi ánægju með það, vonast til þess að sú áætlun standi, en hef miklar efasemdir um að svo verði í ljósi reynslunnar og þeirra fyrirvara sem við gerum við fjárlagafrumvarpið og þeirra tillagna sem þar eru inni sérstaklega sem lúta að tekjuhluta þess, sömuleiðis einstakra hluta sem lúta að gjaldahlutanum.

Hér er líka eitt atriði sem vert er að hafa í huga og ég vil nefna að það vantar inn, ég rek í það augun að ég gleymdi að nefna það, það eru ríkisábyrgðir. Í árslok 2009 voru þetta fjárhæðir sem námu 1.211 milljörðum kr. Það kveikja kannski ekki allir á því hversu há fjárhæð þetta er en þegar þetta er sett í samhengi við landsframleiðslu okkar á þessum ágætu dögum slagar þetta upp í það að vera 1.200 milljarðar á móti 1.500 milljörðum í landsframleiðslu á einu ári. Þarna er gríðarleg ábyrgð á ferðinni og ég tel fulla ástæðu fyrir þingið að fara í gegnum það eða ríkisstjórn að leggja eitthvert mat á áhættuna af þeim skuldbindingum sem þarna eru á ferðinni.

Þetta snertir að sjálfsögðu ýmsa þætti í starfsemi ríkissjóðs og fyrirtækja á hans vegum. Þau eru misvel í stakk búin til að bera þetta, sum betur en önnur eins og sést í tillögum þeim sem liggja fyrir við 2. umr., að þau atriði sem bera uppi tekjubreytinguna á tekjugrein fjárlaga eru hækkaðar arðgreiðslur af ríkisfyrirtækjum, samtals að upphæð um 1 milljarður kr. Hið gamalgróna og sterka fyrirtæki Landsvirkjun ber langdrýgstan hlut í því, ber 800 millj. kr. af þeim milljarði sem þar er lagt út fyrir. Ekki eru mörg ár síðan menn, sérstaklega úr röðum stjórnarliða, höfðu allt á hornum sér varðandi þetta fyrirtæki, sögðu það á hraðri leið beint í þrot eða á höfuðið. Nú er þetta gullkálfur ríkissjóðs á grunni þeirra verkefna sem ráðist hefur verið í á þess forsendum. Ég sé ekki annað en að menn þiggi með þökkum þann arð sem hægt er að hafa af þessu fyrirtæki á grunni þeirra fjárfestinga sem það réðst í. Ég hef í það minnsta ekki heyrt neinar mótbárur frá mótmælendum þeirra framkvæmda úr röðum t.d. ráðherra ríkisstjórnarinnar, sérstaklega frá Vinstri grænum, við því að þiggja það að fyrirtæki á vegum ríkisins geti lagt ríkissjóði lið í því verkefni sem hann stendur frammi fyrir um þessar mundir.

Laun og launatengd gjöld opinberra starfsmanna eru stærsti einstaki útgjaldaliður í fjárlögum ríkisins. Í fjárlögum ársins 2010 námu laun og launatengd gjöld um 120 milljörðum kr. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 er gert ráð fyrir því að til þessa þáttar verði varið 114 milljörðum. Þarna er um að ræða gríðarlega lækkun. Ætla má að launabreytingar á milli áranna 2010 og 2009 verði u.þ.b. 9 milljarðar kr. Maður staldrar aðeins við þegar maður sér þessa tölu því að ef við gerum ráð fyrir að hvert ársverk sé um 5 millj. kr. á ári fyrir ríkissjóð eru þarna á ferðinni 1.800 störf. Þegar maður fer að skoða þetta rennur það upp fyrir manni að bróðurparturinn er málefni fatlaðra, færsla launagreiðslna, frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaga.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli við frumvarpið er það að í forsendum þess er ekki gert ráð fyrir launabreytingum eða launahækkunum hjá ríkisstarfsmönnum. Forsendur fjárlagafrumvarpsins gera hins vegar ráð fyrir að kaupmáttur launa aukist á milli ára. Þetta er einhver þversögn sem gengur ekki almennilega upp. Þegar maður fer að rýna nánar í þetta sér maður, það rennur upp fyrir okkur, að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að laun á almennum vinnumarkaði hækki á bilinu 4–5%. Ég get ekki séð það með nokkrum rökum að opinberir starfsmenn reyni ekki að krefja ríkissjóð um launabætur ef almenni markaðurinn fær sínar að einhverju leyti. Ég sé bara ekki hvernig þetta á að ganga upp. Að þessu leytinu verðum við að hafa ákveðinn fyrirvara á þeim þætti áætlunargerðarinnar við fjárlögin sem lýtur að tekjuskatti og útgjöldum ríkissjóðs hins vegar. Ég held að þarna sé einn galli, ef svo mætti segja, í áætlunargerð sem tengist fjárlögum þessa árs.

Til viðbótar verður að horfa til þess að í breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir hér er dregið úr uppsögnum sem annars hefðu orðið samkvæmt vilja ríkisstjórnarinnar. Þessi eina litla breyting mun hafa í för með sér kostnað sem lýtur að hærri launagreiðslum. Þetta undirstrikar í mínum huga enn og aftur nauðsyn þess að menn vandi sig og gera verður kröfu til þess að fjárlaganefnd fái fyllri og betri upplýsingar þegar hún stendur að og gerir tillögur sínar til þingsins.

Þetta rekur mann í að rifja aðeins upp orð og athafnir þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við stjórnvölinn. Þegar maður skoðar fjárlagafrumvarpið vekur það athygli að sum áform þess ganga þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda og stjórnarsáttmála hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar. Ég ætla að nefna tvö dæmi því til staðfestingar að þetta samræmi skorti.

Í stefnuyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna er talað um að beita aðferðum kynjaðrar hagstjórnar í öllu fjárlagaferlinu. Því skýtur skökku við sú áhersla sem kemur fram í frumvarpinu á fækkun kvennastarfa í velferðarþjónustu landsins. Í stefnuyfirlýsingunni segir, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um útgjaldaramma til næstu fjögurra ára verði lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Kynjuð hagstjórn verður höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn.“

Gríðarleg viðbrögð og mótmæli við tillögum stjórnarflokkanna eru órækur vitnisburður um að þessi stefnumið hafa verið svikin. Ég vil geta þess líka að í tillögum til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, sem var lögð fyrir 139. löggjafarþing, er lögð áhersla á að félagsauður hvers svæðis sé grundvöllur atvinnulífs, þjónustu og almennrar þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Félagsauðurinn ræður því miklu um almenn búsetuskilyrði og samkeppnishæfni en hins vegar verður ekki annað ráðið af viðbrögðum við fjárlagafrumvarpinu en að tillögur ríkisstjórnarinnar vegi að grunni búsetu, atvinnulífs og lífskjara vítt um land. Þar með eru áform frumvarpsins komin í beina andstöðu við byggðaáætlun. Ég vil nefna annað dæmi úr byggðamálum þessu til staðfestingar, það lýtur að tillögu forsætisráðherra til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífs og samfélagi um allt land, hún var lögð fram á 138. löggjafarþingi. Í þeirri þingsályktun er sagt fyrir um til hvers er ætlast og, með leyfi forseta, segir þar:

„Sóknaráætlun felur í sér áform um fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins og stefnu um hvernig megi styrkja menntun og menningu, nýsköpun og þróun, umhverfismál og samfélagslega innviði.“

Í sömu stefnu segir um mannauð, með leyfi forseta:

„Lögð verði áhersla á að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla þannig að allir einstaklingar eigi jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Horft verður til aldursskiptingar og hvernig skuli brugðist við hugsanlegu misvægi í aldursþróun. Þá verði samræmdar áherslur og skipulag í grunnmenntun, framhaldsmenntun og starfsþjálfun á viðkomandi svæðum.“

Með tillögum sínum í fjárlagafrumvarpinu gekk ríkisstjórnin gegn eigin stefnumörkun, þær koma harðast niður á starfskjörum kvenna og svonefndum félagsauði, ekki síst á landsbyggðinni. Í ljósi þeirra alvarlegu, mörgu og miklu athugasemda sem fram hafa komið víðs vegar af landinu er bersýnilegt að miklir erfiðleikar blasa við stjórnvöldum að framfylgja eigin stefnu í þessum efnum. Ástæðan liggur fyrst og fremst í þeirri dapurlegu staðreynd að ríkisstjórnin hefur af einhverjum ástæðum ekki unnið heimavinnuna sína áður en lagt var upp í þennan vonlausa leiðangur. Meðal annars af þeirri ástæðu lögðu fulltrúar 1. minni hluta fjárlaganefndar fram tillögur til úrbóta á fundi nefndarinnar þann 15. nóvember síðastliðinn. Þær er að sjá í fylgiskjali með nefndaráliti okkar. Gerð var bókun í fjárlaganefnd þar sem sett var af stað ákveðin vinna. Í fyrsta lagi kom þetta upp í umræðu 11. nóvember og í öðru lagi var afgreitt samhljóða í fjárlaganefnd að fara til þessa verks á fundi hennar 15. nóvember í kjölfar þess að sá sem hér stendur og hv. formaður nefndarinnar gerðu tillögu til nefndarinnar.

Ég ber þá von í brjósti að ef vel gengur með þessa vinnu verði það til þess að skapa meiri skilning og þá um leið almennari sátt í þjóðfélaginu um þær aðgerðir sem nauðsynlegar kunna að reynast til að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni það sem getið er um í áliti okkar í 1. minni hluta en það er hinn duldi halli í fjárlögunum. Það virðist vera stærð sem menn kinoka sér við að horfa til. Eins og fjárlaganefndarfólk þekkir manna best er víða um að ræða dulinn halla í reikningum stofnana ríkisins. Við þekkjum öll umræðuna um afgreiðsluna sem heilbrigðisstofnanir fengu fyrir ekki margt löngu og sérstaklega það sem lýtur að Landspítala þar sem hallinn er gerður upp með lánveitingu úr ríkissjóði upp á 2,8 milljarða kr. Fyrir það fyrsta er þetta óheimilt að lögum. Í öðru lagi setur þetta aðra forstöðumenn eða aðrar stofnanir í þá stöðu að velta því fyrir sér hvort þær eigi ekki að sækja í sambærilega fyrirgreiðslu eins og þar er um að ræða.

Í umsögn Ríkisendurskoðunar um fjárlagafrumvarp ársins 2011 — við í nefndinni óskuðum eftir því að Ríkisendurskoðun mundi rýna í það — kemur ágætlega fram hvernig þetta vandamál er vaxið. Það álit Ríkisendurskoðunar fylgir tillögum í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta. Í skemmstu máli er niðurstaðan af þessum athugasemdum sú að þarna sé við meiri og stærri vanda að glíma en menn vilja viðurkenna. Ég tók eftir því í umræðum um fjáraukalög í gær að varaformaður fjárlaganefndar fullyrti að búið væri að ná tökum á öllum rekstri ríkissjóðs eins og að í fyrsta skipti stefndi í að við héldum honum innan allra banda. Ég neita því ekki að ákveðinn árangur hefur náðst í því að stofnanir fara ekki í sama mæli og áður var fram úr heimildum, en menn verða að hafa allar staðreyndir máls uppi á borðum. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna til athugasemda Ríkisendurskoðunar um þennan svokallaða dulda halla, þ.e. fjárveitingar í frumvarpi til fjárlaga ársins 2011 og raunverulegar fjárheimildir:

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er þessi, með leyfi forseta, á bls. 13 í nefndaráliti okkar:

„Niðurstaðan er sú að ef þær fjárveitingar sem frumvarpið leggur til að veitt sé til ofangreindra stofnana“ — sem eru listaðar hér upp í töflu — „verða samþykktar óbreyttar munu sumar þeirra þurfa að skera niður útgjöld um á bilinu 10–50% frá rekstraráætlun þessa árs.“

Þetta er vandamál sem Ríkisendurskoðun hvetur fjárlaganefnd til að fara rækilega yfir og fara rækilega ofan í og kalla eftir upplýsingum frá forstöðumönnum þessara stofnana um það hvernig þeir sjái fram á að ráða við það verkefni sem þarna blasir við þeim.

Gangi áform fjárlagafrumvarpsins eftir, um jöfnuð í ríkisfjármálum, munu nást þau markmið sem sett voru í samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008 um frumjöfnuð ríkissjóðs. En erfiðasti hjallinn er eftir. Margir stjórnarþingmenn hafa lýst því yfir að fjárlög ársins 2011, næsta árs, séu erfiðustu fjárlög sem lögð verði fram, en það er alls ekki sjálfgefið. Ég tel þvert á móti margt benda til þess að fjárlög ársins 2012 verði til muna erfiðara að setja saman en þau sem glímt er við hér. Stjórnvöld eiga enn eftir að ná halla ríkisins niður um a.m.k. 34 milljarða. Ég vil þó undirstrika að það má fullvíst telja að enn hafi ekki verið hagrætt svo sem kostur er hjá öllum ríkisstofnunum og því mjög mikilvægt að mótuð verði framtíðarstefna í helstu málaflokkum ríkisins, svo sem heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum.

Áður hefur verið bent á mikinn veikleika tekjuhliðarinnar. Það má lítið út af bregða til að illa fari. Það er því mjög áríðandi að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan nái samstöðu um þær ráðstafanir sem grípa þarf til á gjaldahlið fjárlaga eins og ég gerði að umtalsefni hér fyrir hádegisverðarhlé. Mikilvægt er að stjórnarflokkarnir taki ítrekuðu boði fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd um raunverulegt samstarf við að ná árangri í þeim erfiðu aðhaldsaðgerðum sem fram undan eru. Til eru aðrar leiðir og vænlegri til árangurs en sú blindgata og öngstræti sem ríkisstjórnin (Forseti hringir.) virðist hafa ratað í.