139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu. Ég er um margt sammála þingmanninum, sérstaklega varðandi tekjuhlutann, en okkur greinir á varðandi útgjaldahlutann. Það er kannski ástæðan fyrir því að við erum hvor í sínum flokknum.

Mig langar til að spyrja hann út í setningu á bls. 8 í áliti þeirra sjálfstæðismanna en þar segir, með leyfi forseta:

„Lögð er áhersla á að forðast flatan niðurskurð í háskólum en þess í stað byggt á færri og sterkari einingum.“

Hvað þýðir þessi setning, hv. þingmaður. Mig langar til að fá að vita hvað sjálfstæðismenn eru að hugsa. Eru þeir að tala um að sameina háskóla? Hvaða háskóla á þá að sameina? Hvernig hugsa þeir þetta?

Síðan kemur fram:

„Í heilbrigðiskerfinu skal svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila aukið og í auknum mæli byggt á samkeppni um þá þjónustu sem veita þarf. “

Þá kem ég aftur að þessu: Hafa sjálfstæðismenn ekkert lært? Munu ég og aðrir þingmenn heyra einkavæðingarsönginn á næstu missirum? Við höfum séð það núna varðandi einkarekstur eins og t.d. í menntakerfinu að hann hefur víða mistekist. Við höfum því miður brennt okkur illilega að mínu mati. Ég segi og það er mín skoðun að við eigum ekki að blanda saman ríkisrekstri og einkarekstri. Við eigum ekki að láta einkaaðila úti í bæ sýsla með almannafé og það skiptir engu máli hvort það er fé með ábyrgð eða fé sem við útdeilum til skólastofnana eða inn í heilbrigðiskerfið. (ÞKG: Skilaboðin sem við fáum …) Ja, þetta eru skilaboð mín og mín skoðun varðandi alla starfsemi þar sem blandað er saman svona rekstri. Það hef ég sagt mjög skýrt. En mig (Forseti hringir.) langar til að fá viðbrögð hv. þingmanns við þessari fyrirspurn.