139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skoðanir okkar hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar fara að mörgu leyti saman í skattamálum og hafa gert eins og fram hefur komið í vinnu fjárlaganefndar. Mér er engin launung á því að skattheimta er að mörgu leyti komin út að ystu mörkum, það verður ekki meira að gert við þær aðstæður sem nú blasa við. Það á jafnt við um fyrirtæki og fjölskyldur í landinu, vegna þess að það eru einföld sannindi að þetta bítur í skottið á sér, ef það étur það ekki upp til agna, þegar komið er að ystu mörkum í skattheimtu.

Svo ber á hitt að líta að ýmiss konar skattheimta hefur margfeldisáhrif í för með sér og hrindir af stað margvíslegum áhrifum sem heimilin geta ekki varist vegna neysluviðmiðanna sem nú eru viðhöfð. Það getur (Forseti hringir.) verið ósanngjarnt gagnvart fólki sem hefur minnst á milli handanna.