139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar þó að hv. þingmaður hafi hljómað um stund eins og hagtölur mánaðarins.

Bara svo ég hafi þetta skýrt. Ef hv. þingmaður les tillögur okkar sjálfstæðismanna leggjum við m.a. til 0,25% svokallaðan bankaskatt af því að viljum að fjármálafyrirtækin borgi fyrir þá ríkisábyrgð sem ríkið veitir gagnvart innstæðum. Það er því mjög skýrt að við erum ekkert á móti öllum gjöldum. Hv. þingmaður þuldi upp gjöld, við erum ekki að tala um að við séum á móti öllum gjöldum. Við erum á móti sumum gjöldum sem eru óhagkvæm. (Gripið fram í.) Ef það er orð sem menn skilja ekki veit ég ekki hvað — óhagkvæm fyrir atvinnulífið og fyrirtæki í landinu. Það er mjög auðvelt að finna út hvaða gjöld eru óhagkvæm fyrir atvinnulífið og fjölskyldurnar í landinu, svo ég tali nú ekki um skattana. Það er mjög einfalt.

Það sem við erum að tala um, ég benti m.a. á bankaskattinn, við getum dregið hann fram, við erum reiðubúin til að styðja slíkar breytingar. Það er út af því að við treystum okkur til þess að fara í það verkefni að segja hvaða gjöld eru hófleg fyrir atvinnulífið og hvaða gjöld eru óhagkvæm og íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Það sama gildir að sjálfsögðu um skattana. Þetta er verkefnið og þess vegna verður maður að hafa skilning á því að atvinnulífið verður að fara af stað. Það verður að vera framleiðni til að við getum einhvern tíma farið að tala um það að geta skattlagt eitthvað af því sem hv. þingmaður talaði um.