139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[01:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson út í ástæðu þess að hann einblínir bara á skattahækkanir í ræðu sinni. Mér finnst það villa fólki sýn að einblína aðeins á neikvæð áhrif þess að hækka skatta af því að þá missir fólk sjónar á því hvers vegna þarf að hækka skatta í fjármálakreppu. Ástæðan er jú sú að það er mikill hallarekstur á ríkissjóði eftir bankahrunið vegna þess að skatttekjur hafa dregist mikið saman og mikil skuldabyrði hefur fallið á ríkið vegna falls bankanna. Rannsóknir hagfræðinga AGS benda til að mjög erfitt sé að ná niður hallanum með því að skera eingöngu niður og að engin þjóð komist í gegnum það að ná jöfnuði í ríkisfjármálum án þess að hækka skatta og skera niður útgjöld í kjölfar bankahruns. Ég vil því beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji ekki að það hafi verið nauðsynlegt að hækka skatta hér í kjölfarið á bankahruninu 2008.