139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum komin inn í þann kafla í fjárlagafrumvarpinu, við 2. umr., þar sem verið er að gera verulegar breytingar á aðhaldskröfunum í sambandi við heilbrigðismálin. Eins og hér hefur áður komið fram fékk fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra það verkefni að skera niður um 5%. Það hefur tekist að breyta því og lækka þá aðhaldskröfu niður í 3%, úr 4,7 milljörðum kr. niður í 3 milljarða kr.

Það var ákveðið í þeirri endurskoðun að þessi breyting ætti sér fyrst og fremst stað á 13 heilbrigðisstofnunum sem eru dreifðar víðs vegar um landið þar sem átti að skera niður um 3 milljarða kr. og þeirri tölu breytt í 1,3 milljarða kr. Það er um að ræða verulega lækkun.

Í framhaldinu hefur verið ákveðið að sett verði á fót samráðsnefnd sem mun fylgjast með framkvæmdinni á þessu og endurskoða þær aðgerðir sem þarna er verið að grípa til, hafa stöðugt eftirlit með því og undirbúa þannig fjárlög fyrir árið 2012. Ég vona að í framhaldi af þessari vinnu náist meiri sátt um heilbrigðiskerfið því að við þurfum á því að halda að það sé öflugt og starfi vel um hinar dreifðu byggðir. (Forseti hringir.) Í trausti þess legg ég fram þessa tillögu og styð hana eindregið.