139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er sannarlega verið að greiða atkvæði um erfitt fjárlagafrumvarp enda fer tíminn í það eftir því. Hér erum við komin að liðunum um heilbrigðismál sem miklar deilur hafa verið um í þjóðfélaginu upp á síðkastið, eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram.

Sú stefnumótun sem þar var kynnt hafði aldrei verið rædd og slík stefnubreyting verður ekki gerð að mínu mati með því að setja hana fram í fjárlögum. (Gripið fram í.) Hins vegar hefur núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra dregið varanlega til baka 1.200 millj. kr. af þessum niðurskurði og frestað öðrum upp á 560 millj. kr. til ársins 2012. Því ber að fagna, virðulegi forseti. Ég vona að til atkvæðagreiðslu um niðurskurð til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni árið 2012 komi aldrei. Ég hef trú á að hagvöxtur muni gera það að verkum en ég hef líka hlustað á fyrirvara nokkurra þingmanna (Forseti hringir.) um fjárlagafrumvarpið milli 2. og 3. umr. Mér finnst þeir athyglisverðir og ég held að það sé hægt að laga betur ýmsa þætti (Forseti hringir.) sem hér koma fram.