139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um Varnarmálastofnun og niðurlagningu hennar. Reyndar er það svo að hæstv. ráðherra slapp fyrir horn með fyrstu spurninguna þar sem hann hélt þann lögboðna fund sem fyrsta spurningin vísaði til sl. laugardag. Það liggur því í augum uppi að ekki þarf að eyða miklum tíma í að fjalla um þá spurningu.

Við þekkjum þetta mál, við þekkjum forsöguna. Þetta er eitt nýjasta, skýrasta dæmið um óboðleg vinnubrögð þessarar ágætu ríkisstjórnar. Þetta er klúður og ekkert annað en klúður. Þetta byrjar allt við stjórnarmyndunina og ég vil leyfa mér að kalla það hrossakaup við stjórnarmyndunina vegna þess að þá fá Vinstri grænir eitthvað fyrir að gefa eftir í öðrum málum sem þeim er á móti skapi, þeir fá að leggja niður Varnarmálastofnun. Við gagnrýndum þetta mjög harðlega þegar málið var til umræðu enda er allt við það hið mesta klúður. Þarna er byrjað á öfugum enda. Byrjað er á því að leggja niður stofnun án þess að nokkuð liggi fyrir um hvert verkefnin eiga að fara, án þess að nokkuð liggi fyrir um hvernig eigi að sinna verkefnunum. Það eina sem hæstv. utanríkisráðherra segir er að öll verkefni verða áfram tryggð. Síðan eru lögin samþykkt og allt gengur þetta þvert gegn öllum vinnubrögðum sem menn viðhafa í nútímastjórnsýslu, allar reglur um þau virðast vera brotnar. Þetta gengur líka þvert á það sem rannsóknarskýrsla Alþingis boðar. Þetta gengur þvert gegn almennri skynsemi og öllum þeim vinnubrögðum sem við viljum að viðhöfð séu. Aldrei í öllu þessu ferli er spurningunni svarað: Af hverju eru menn að þessu yfir höfuð? Hverju erum við bættari? Hvernig er þessum verkefnum betur fyrir komið með þessum hætti heldur en þeim er fyrir komið núna?

Nú ári síðar, korteri fyrir áramót, koma ráðherrarnir og segjast vera búnir að ná niðurstöðu um málið sín á milli. Þeir eru búnir að skipta kökunni, alla vega til bráðabirgða. Við skulum svo sjá til 15. mars. Enn þá heldur klúðrið áfram. Ef þetta lá allt saman fyrir, ef þetta var svona rökrétt frá upphafi, af hverju var málið þá ekki klárað endanlega? Af hverju voru ekki vinnubrögðin betri? Hvað kostuðu öll þessi herlegheit? Eitthvað kostar það að ráða verkefnisstjórn til að fara með þessi mál vegna þess að ekki mátti forstjórinn vera um kyrrt. Ég spyr um það í fyrirspurn minni og ég ætla ekki að endurtaka spurningarnar hér vegna tímaskorts.

Síðan vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra varðandi það eina sem mér fannst þó jákvætt í laugardagstilkynningunni. Færa á hluta verkefnanna til Gæslunnar. En þá spyr ég: Af hverju var ekki gengið alla leið og tækifærið notað til að tryggja málinu einhverja farsæla lúkningu, fara alla leið og segja: (Forseti hringir.) Færum þetta til Landhelgisgæslunnar. Færum Landhelgisgæsluna suður vegna þess að starfsmennirnir eru enn þá í óvissu, starfsmennirnir sem svo vill til að eru á Suðurnesjum. Það virðist vera aukamarkmið hjá þessari blessuðu ríkisstjórn (Forseti hringir.) að skapa heimatilbúna óvissu þar. Af hverju var ekki gengið frá því máli og farið í þetta?