139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Margt er vel gert í íslenskum háskólum en við verðum þó að viðurkenna að háskólasamfélagið á Íslandi einkennist of mikið af of mörgum veikburða skólum, of litlu samstarfi á milli þeirra, of miklum tvíverknaði með tilliti til námsframboðs og síðast en ekki síst of litlu fjármagni samanborið við fjárveitingar til annarra skólastiga hér á landi. Myndin af fjárveitingum hins opinbera til skólastiga er þveröfug við þróunina í samanburðarlöndum OECD. Í þeim ríkjum er mestu fjármagni varið til háskóla og framhaldsskóla en hér verjum við mestu fjármagni til grunnskólans. Framlög Íslendinga til háskóla eru undir meðaltali í OECD-ríkjunum.

Hæstv. menntamálaráðherra minntist áðan á ráðgjöf alþjóðlegrar sérfræðinefndar sem skilaði tillögum á síðasta ári og lagði þar til að háskólasamfélagið yrði byggt upp í stórum dráttum í kringum einn ríkisháskóla, þar sem móðurskólinn væri Háskóli Íslands með útibúum á landsbyggðinni, og einn einkaskóla, Háskólann í Reykjavík, sem yrði sameinaður Listaháskólanum og Háskólanum á Bifröst. Í kjölfarið á þessari skýrslu hefur ráðherra sett á fót samstarfsnet opinberu háskólanna sem er afar mikilvæg viðleitni til að auka samstarf og samþættingu þeirra með hugsanlega sameiningu í huga. Enginn vafi er á því að þessi framtíðarsýn er skynsamleg út frá sjónarmiðum hagræðingar og betri nýtingar fjármuna og hún eykur líka líkurnar á að eftir standi öflugar menntastofnanir sem geti staðið undir nafni sem háskólar í fremstu röð.

Ég vek athygli á því að það eru til fleiri leiðir en sú að skilgreina háskólasamfélagið út frá rekstrarformi þar sem annars vegar sé opinber háskóli og hins vegar einkaskóli. Við getum og eigum í ríkari mæli að skilgreina háskólasamfélagið út frá þörfum nemenda og brjóta niður múrana milli opinberu háskólanna og einkaskólanna þannig að nemendur geti í auknum mæli nýtt sér það besta úr báðum áttum. Þetta kallar þó á það að við þurfum að vera óhrædd við að skoða leiðir til að samræma gjaldtöku í kerfinu, t.d. með þeim hætti að grunnháskólanám verði alls staðar í kerfinu án skólagjalda en í framhaldsnámi greiði menn (Forseti hringir.) hófleg gjöld eins og þekkist í löndunum í kringum okkur sem t.d. gætu tekið mið af væntum framtíðartekjum í viðkomandi grein.