139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni. Það hefur ekkert komið fram við umfjöllun nefndarinnar sem bendir til þess að þetta stangist á við stjórnarskrá. Hv. þingmaður nefnir að hér sé verið að búa til of miklar væntingar hjá almenningi en ég held að svo sé ekki. Ég held að hér sé einfaldlega verið að bregðast við tilteknum fjölda einstaklinga sem hafa reynt öll önnur úrræði. Ef þetta er borið saman við t.d. það úrræði sem greiðsluaðlögunin er er sá meginmunur á gjaldþrotunum og greiðsluaðlöguninni að þar er komist að tiltekinni upphæð sem einstaklingur getur lifað við að greiða af skuldum sínum. Það er búið til sérstakt þriggja ára tímabil og að því loknu er meginburðurinn af skuldunum afskrifaður. Ákveðnar tegundir af skuldum, eins og námslán og meðlagsskuldir, halda áfram en aðrar eru þurrkaðar út.

Við gjaldþrot stendur fólk náttúrlega eignalaust eftir. Það er ekkert eftir, heimilið farið og bíll, og fólk þarf að hefja líf sitt og byggja það frá grunni á algjörlega nýjum forsendum. Munurinn á þessu tvennu er mjög mikill. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að tala um þetta mál í því samhengi að verið sé að búa til einhverjar sérstakar væntingar, heldur miklu frekar er þetta til að bregðast við raunveruleika sem við, því miður, (Forseti hringir.) búum við á Íslandi.