139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hæstv. ráðherra eigum það sameiginlegt að við viljum styrkja stöðu skuldara, auka greiðsluvilja fólks og koma til móts við hinn venjulega mann sem orðið hefur fyrir forsendubresti og á í miklum fjárhagserfiðleikum.

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér um að greiðsluaðlögun til framtíðar muni frekar taka eitt ár en þrjú, við skulum bara vona að svo verði. Ég bendi hins vegar á þá hættu sem fyrir hendi er, verði þetta frumvarp óbreytt að lögum, að það kann að koma upp sú staða að gjaldþrotaúrræðið verði fýsilegra en að fara í greiðsluaðlögun. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vil haga löggjöfinni þannig að það sé eðlilegri og skynsamlegri valkostur að fara í gegnum greiðsluaðlögun en þurfa að sæta því að bú manns sé tekið til gjaldþrotaskipta. Í mínum huga eigum við að stefna að því að þjóðfélag okkar sé þannig upp byggt að menn borgi skuldir sínar, séu þær réttmætar og sé það mögulegt. Sé fólki mögulegt að standa við skuldbindingar sínar á það að gera það og vera hjálpað við það.

Ég slengi þessu svona fram sem varnaðarorðum. Í því felst ekki — ég vil taka það sérstaklega fram — að ég sé stuðningsmaður núverandi kerfis. Núverandi kerfi er, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, ómanneskjulegt og ósanngjarnt og því verður að breyta.