139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ræðu sem um margt var ágæt og ég get tekið undir ýmislegt í henni. Ég ætla að nefna þrjá þætti stuttlega. Í fyrsta lagi vildi ég nefna að það er alveg rétt að tilkoma þessa frumvarps getur vissulega fjölgað þeim einstaklingum sem úrskurðaðir verða gjaldþrota. Það er hvati fyrir fólk í ákveðinni aðstöðu til að fara þessa leið eftir að lagabreytingin hefur náð fram að ganga þannig að forsagan segir ekki allt um framtíðina í þessum efnum, ég tek undir það.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði í ræðu minni áðan að ég held að það sé rétt að tóna örlítið niður þær væntingar sem maður hefur heyrt í almennri umræðu um að þarna sé um að ræða leið sem geti nýst þeim mikla fjölda sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum. Þar held ég að við séum við að tala um þúsundir og ég held ekki — reynslan á kannski eftir að leiða annað í ljós — að um það verði að ræða í þessu tilviki, að þetta muni leiða til þess að þúsundir fari í gjaldþrot í staðinn fyrir 110–130 á ári.

Hæstv. forseti. Ég hugsa að klukkan sé eitthvað vitlaus, en í annan stað vildi ég nefna að við hv. þm. (Forseti hringir.) Lilja Mósesdóttir kunnum að vera sammála um niðurstöðuna hvað varðar afturvirkni og eignarrétt í þessu sambandi en ég get ekki tekið undir röksemdir hennar (Forseti hringir.) fyrir því. Við komumst kannski að sömu niðurstöðu með ólíkum forsendum, en nóg um það.

Í þriðja lagi vildi ég beina þeirri spurningu til hennar hvort hún sé ekki sammála mér (Forseti hringir.) um að greiðsluaðlögunarúrræðið þurfi að rýmka og lagfæra töluvert frá því sem nú er þannig að það nái tilgangi sínum.