139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og vil af því tilefni lýsa því yfir að að sjálfsögðu fögnum við sjálfstæðismenn hverju skrefi sem stigið er til þess að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðsins. Það hefur ekkert staðið á okkur í umræðunni að fagna áföngum sem þar hefur verið náð. Ég byrjaði raunar ræðu mína með framsögu úr nefndarálitinu og nefndi heildarrammann um fjárlögin sem við erum að vinna með. Allar meginlínur ganga eftir áætluninni sem lögð var upp haustið 2008. Ég segi sem betur fer. Það sem ég hef áhyggjur af, og deili áhyggjunum með mörgum öðrum, eru viðvörunarljósin sem við sjáum á öðrum þáttum en þeim sem við getum rammað innan fjárlaganna sjálfra. Við fáum merki úr öðrum breytum inn í efnahagslífinu sem vigta inn í það með hvaða hætti afkoma ríkissjóðsins verður næstu árin. Við höfum töluverðar áhyggjur af þessu.

Ég deili skoðun með hæstv. ráðherra að það er auðveldara og verður einfaldara viðfangs, sérstaklega eftir að búið er að temja menn betur en raun ber vitni, að eiga við það að ná tökum á 37 milljörðum frekar en 70 milljörðum, það leiðir af sjálfu sér.

Varðandi tekjuáætlunina er því til að svara að á árinu 2010 er hún borin uppi að stærstum hluta af einskiptisaðgerðum, það er atriði sem ber að undirstrika, en ég fagna því hins vegar ef það eru að koma fram nýjar (Forseti hringir.) upplýsingar um að tekjuáætlun sé að rétta við, því við höfum varnaðarorð Ríkisendurskoðunar fyrir því að þar væri að draga í sundur.