139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sérstaklega fyrir lokin þar sem hann var farinn að taka undir tillögur okkar sjálfstæðismanna og koma inn á það sem hann er algjörlega sammála okkur um. Það verður að verða vöxtur í hagkerfinu til að komast út úr þessum vítahring og hann benti réttilega á að skattahækkanir og skattpíning ríkisstjórnarinnar væru fyrir löngu komnar að endimörkum.

Hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar að norræn velferðarstjórn yrði að gera sér grein fyrir því að það yrði að aflétta álögum af fyrirtækjunum til að þau gætu skapað störf þannig að fólkið fengi vinnu til að geta staðið undir skuldbindingunum. Um það deilum við hv. þingmaður ekki. Þegar tryggingagjaldið var hækkað í kjölfar þess að atvinnuleysi jókst brást atvinnulífið mjög vel við og tók jákvætt í það en síðan þegar atvinnuleysið minnkar, sem er sem betur fer að gerast núna, er afgangur af þessu tryggingagjaldi sem rennur beint í ríkissjóð. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir með okkur sjálfstæðismönnum um að nú væri einmitt lag að lækka aftur tryggingagjaldið til að bregðast við því sem hv. þingmaður sagði.

Í annan stað kom hv. þingmaður inn á það í upphafi ræðu sinnar að mikilvægasta verkefnið væri að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, gera ríkissjóð sjálfbæran eins og hv. þingmaður orðaði það. Það kom líka fram í ræðu hv. þingmanns að skattpíningin væri komin að endimörkum. Margir hv. þingmenn hafa talað um að þetta sé erfiðasta fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fram. Ég er því miður ekki alveg sannfærður um það en vona svo sannarlega að svo sé. Hallinn á næsta ári er 37 milljarðar kr. og ef það verður hugsanlega gengið frá Icesave-samkomulagi eru það 23 milljarðar kr. til viðbótar þannig að við erum enn þá hugsanlega með 60 milljarða kr. halla. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við þurfum að fara í blóðugan niðurskurð aftur á árunum 2012 og 2013.