139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:46]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað tryggingagjaldið varðar tel ég mjög eðlilegt að komið verði á einhvers konar viðmiði, þá í samtali ríkisvalds og Samtaka atvinnulífsins. Það er ekki eðlilegt að tryggingagjaldið taki ekkert tillit til þeirra breyttu aðstæðna sem eru að verða í samfélaginu á hverjum tíma. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að koma á einhvers konar viðmiðun, ég vil ekki kalla það rauð strik en e.t.v. eitthvað sem menn geta sætt sig við í atvinnustiginu og að tryggingagjaldið taki tillit til þeirra breyta sem þar verða hverju sinni.

Hvað launabilið í landinu varðar hjá hinu opinbera tek ég hreinlega undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, auðvitað blöskrar manni að annars vegar sé gengið svo nærri starfsfólki í láglaunastörfum á heilbrigðisstofnunum úti á landi, reyndar í menntastofnunum líka víða úti á landi, að þeir hópar, gjarnan konur, taki á sig kannski mestu skerðinguna í efnahagsáfalli Íslendinga en svo geti forstöðumenn fínna stofnana, gjarnan á suðvesturhorninu, hagað sínum launagreiðslum að vild þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram og menn virða að því er virðist í engu. Auðvitað þarf að taka á þessu. Ég heiti á hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því og hefur hún til þess ærið afl að taka á þessum vanda. Þetta er óréttlátt og þetta eru ömurleg skilaboð til þess fólks sem nú starfar á viðkvæmustu stofnunum landsmanna, í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu og meðal fatlaðra, að það taki á sig hlutfallslega mestu launalækkunina en (Forseti hringir.) hinir sem geta skammtað sjálfum sér úr sínum eigin vasa leiki lausum hala.