139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa spurningu og ábendingu. Nú tekst ég á við fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem þekkir betur til þessa málaflokks en sá sem hér stendur. Ég skal fúslega viðurkenna að í mörg horn er að líta í fjárlagafrumvarpinu og ég hef að meginhluta notað starfskrafta mína til að reyna að ná fram lagfæringum á heilbrigðisstofnunum víða um land. Ég hef ekki kynnt mér nægilega þann sparnaðarþátt er snýr að Sjúkratryggingum og er reyndar ekki lengur í heilbrigðisnefnd þannig að ég hef ekki fylgst með nýjustu umræðum í nefndinni hvað þetta varðar, ef þær hafa á annað borð verið einhverjar.

Ég vil hafa þann háttinn á þegar ég svara í pontu Alþingis að vita eitthvað um það svar sem ég fer með fremur en að fara með staðlausa stafi þannig að ég hyggst reyna að kynna mér þetta efni, það er partur af starfi mínu. Eins og ég gat um er í mörg horn að líta og ég tel mjög eðlilegt að þingið fái hrein svör við þessari spurningu hv. þingmanns. Það skal vera réttur þingsins á hverjum tíma að fá svör. Ég mun beita mér fyrir því, ásamt hv. þingmanni vonandi, að fá fram svör hjá viðkomandi ráðherra og ráðuneyti. Ég tel einsýnt að svar þurfi að liggja fyrir mjög fljótlega vegna þess að málaflokkurinn er viðkvæmur og hefur verið rekinn með erfiðismunum á liðnum vikum, mánuðum og árum. Ekki er ljóst hvert svarið er við spurningu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og rétt að fá það fram.