139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að kalla fram í, bara svo það sé á hreinu. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra viðurkennir að það skipti máli hver heildarútkoman verður fyrir íslensku þjóðina. Hann nefndi að það skipti líka máli hvernig honum liði á meðan. Ég er ekki viss um að sálarástand fjármálaráðherra skipti sérstaklega miklu máli þegar Icesave-samningarnir eru til umræðu. Erum við ekki að tala frekar um framtíð þjóðarinnar, um framtíð barna hennar? Um það snerist þessi umræða allan tímann.

Annað sem við verðum líka að hafa í huga er að tíminn hefur allan tímann unnið með okkur. Það var það sem við sögðum að mundi gerast. Það er ekki út af einhverjum utanaðkomandi breytingum eins og fjármálaráðherra lætur að liggja að hafi gerst. Þetta var einfaldlega staðfesting á því sem stjórnarandstaðan sagði. Tíminn hefur unnið með okkur og mun gera það áfram.