139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kosið að sætta mig við útreikninga hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og notast við þá sem viðmiðun enda er þetta mjög nærri lagi, þessi ágæta tala, 432 milljarðar kr., þó að þetta sé líkast til heldur varfærið, enda voru ýmsir aðrir en fjármálaráðuneytið búnir að leggja mat á heildarkostnaðinn við gamla samninginn og það var yfirleitt í kringum 523 milljarða kr., t.d. í tilviki Jóns Daníelssonar hagfræðings. En verum varfærin og látum 432 duga.

Hins vegar velti ég fyrir mér þessu með áhættuna. Nú tala menn mikið um að áhættan hafi minnkað af því að fjármagn komi inn í búið fyrir sölu eigna. Er ekki ljóst að enn er ýmsum spurningum ósvarað? Mörgum þeirra verður svarað á allra næstu mánuðum, til að mynda varðandi kröfuhafa og annað slíkt. Vonandi verður þá slitastjórn bankans í aðstöðu til að borga út og þá fyrst getum við farið að áætla hversu mikill kostnaður lendir á ríkinu. Er ekki óhætt að segja að mati hv. þingmanns að tíminn vinni með okkur í þessu máli? Væri ekki æskilegt að fyrir lægi hvenær og hversu mikið skilanefndin getur greitt út til að við getum betur gert okkur grein fyrir því hversu mikið tjón ríkisins verður?

Annað varðar ESA en mér sýnist að tíminn sé útrunninn hjá mér í fyrri umferð þannig að ég verð að fá að spyrja þeirrar spurningar á eftir.