139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemdir við orð formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls. Ég er alls ekki að fara með bölbænir heldur lít ég bjartsýn fram á nýtt ár og næstu áratugi.

Úr því að þingmaðurinn kom örstutt inn á það sem ég sagði varðandi hverjir það eru sem nýta úrræðið, vorum við vöruð við því í allsherjarnefnd að það væru þeir sem spilað hefðu tæpast fyrir hrun sem nýttist þetta ákvæði því að krafa um gjaldþrotaskipti hefur einungis verið gerð á rétt rúmlega 100 aðilum. Því miður nýtist þetta frumvarp, verði það að lögum, kannski helst þeim sem fá milljarðana afskrifaða, eins og svo oft áður, hversu ósanngjarnt sem það kann að vera því að enginn er sáttur við það sem gerðist á haustdögum 2008. Eins og þingmaðurinn veit hefur enginn flokkur verið eins áfram um að koma heimilum og skuldugum fjölskyldum til hjálpar og Framsóknarflokkurinn, við stöndum að sjálfsögðu við bakið á þessum aðilum hér eftir sem hingað til. En við erum kannski ekki svo til í að rétta þeim hjálparhönd sem spiluðu óvarlega og komu þjóðinni raunverulega á hliðina, það fólk er gjaldþrota hvort sem er.

Það voru einmitt þau varnaðarorð sem Samfylkingin hafði yfir okkur framsóknarmönnum í síðustu kosningabaráttu, að með flatri 20% niðurfellingu skulda fengju allir hluta skulda sinna felldan niður, líka þeir sem spiluðu óvarlega. Það var málflutningurinn hjá Samfylkingunni fyrir síðustu kosningar. En það er ágætt að hafa skoðanaskipti í þinginu, til þess er þessi ræðustóll. Við hv. þm. Róbert Marshall erum ekki sammála í þessu máli og vil ég aðallega koma áleiðis lagaskilareglunni, að ný lög geta ekki yfirtekið og verið rétthærri en gömul.