139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það styttist í að við getum sagt að þetta ár sé liðið í aldanna skaut, og þegar maður lítur til baka yfir farinn veg er ljóst að mörg stórmálin hefur rekið á fjörur okkar alþingismanna og verið til umfjöllunar í þinginu. Eitt þeirra er skuldavandi heimila. Við höfum margrætt það hér og leitað lausna, ríkisstjórnin lýsti því yfir í mars að allar aðgerðir væru komnar fram, hraktist til baka með það og síðan kom viljayfirlýsing þar sem ríkisstjórnin lagði í samvinnu við fjármálastofnanir fram aðgerðaáætlun vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna.

Í því samkomulagi kemur fram að það sé mikilvægt að úrvinnslu á samkomulaginu verði hraðað og enn fremur segir að ekki séu fleiri aðgerðir væntanlegar. Jafnframt kemur fram að einstaka liðir í þessari viljayfirlýsingu kalli á frekari útfærslu í samstarfi aðila. Að þeirri vinnu lokinni verði undirritað formlegt samkomulag stjórnvalda og þeirra lánveitenda sem að þessu koma.

Nú er rétt að spyrja hæstv. efnahagsráðherra hvað líði frekari útfærslu á þessu samstarfi aðilanna. Það kemur fram í viljayfirlýsingunni að 15. desember skuli liggja fyrir samkomulag um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, þ.e. uppfært samkomulag miðað við þennan nýja veruleika. Nú er 15. desember liðinn og því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvað þessu samkomulagi líði. Er eitthvað í veginum fyrir því eða hafa einhver atriði haft áhrif á vilja aðilanna sem standa að samkomulaginu til að efna það?