139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum. Ég ætla í máli mínu að fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða, en Ríkisendurskoðun taldi í skýrslu sinni að skipulagi og stjórnun málaflokksins væri að ýmsu leyti ábótavant og benti á eftirfarandi veikleika, með leyfi forseta:

„1. Ekki liggur fyrir formlega samþykkt heildarstefna fyrir málaflokkinn þar sem aðgerðir eru tímasettar og árangursmælikvarðar skilgreindir.

2. Fjárveitingar til þjónustunnar taka ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf eins og lög gera ráð fyrir.

3. Eftirlit með starfsemi þjónustuaðila er ófullnægjandi og ekki hægt að fullyrða að jafnræði ríki meðal þjónustuþega. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki kallað eftir samræmdum upplýsingum um starfsemi þjónustuaðila frá árinu 2004.

4. Meginþættir í faglegri starfsemi þjónustuaðila fylgja ekki samræmdum verklagsreglum og því er ekki hægt að fullyrða að þjónustan sé jöfn að gæðum hjá þeim öllum. Þá liggur ekki fyrir með hvaða hætti þjónustusamningar einstakra sveitarfélaga við ríkið hafa verið uppfylltir.

5. Kostnaður er ekki bókfærður með sambærilegum hætti hjá öllum þjónustuaðilum sem m.a. hamlar raunhæfum samanburði á einstökum útgjaldaliðum málaflokksins.“

Þá kom Ríkisendurskoðun með ábendingar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins í níu liðum vegna yfirfærslunnar og telur nefndin mikilvægt að fara yfir hvernig athugasemdum og ábendingum stofnunarinnar er mætt í fyrirliggjandi frumvarpi sem og breytingartillögum nefndarinnar. Ætla ég hér að fara yfir þá liði:

1. Ljúka þarf stefnumótun fyrir málaflokkinn.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að samþykkt verði formlega heildarstefna um þjónustu við fatlaða þar sem fram komi skýr forgangsröðun, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Líkt og fram hefur komið hefur slík formleg stefna ekki verið samþykkt þótt fyrirliggjandi frumvarp endurspegli ákveðna stefnu. Nefndin leggur til breytingartillögu þess efnis að ráðherra skuli eigi síðar en 1. október 2011 leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun um stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks í formi tillögu til þingsályktunar. Áréttar nefndin þó mikilvægi þess að hafin verði vinna við þessa stefnumótun hið fyrsta og hún verði unnin í markvissum skrefum fram að því að frumvarp að nýjum lög um málefni fatlaðs fólks kemur fram 2014.

2. Þjónustumat verður að vera samræmt.

Ekki er kveðið á um matsaðferð í lagatextanum en þó hefur náðst samkomulag um að nota SIS-mat við yfirfærsluna og því tryggt að um samræmt mat verður að ræða. Vegna mismunandi skoðana og andstöðu vissra hópa notenda þjónustunnar þótti mikilvægt að festa matsaðferðina ekki í lagatexta. Tryggir það ákveðinn sveigjanleika og möguleika á því að taka síðar upp aðrar matsaðferðir. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins hefur ráðherra eftirlitshlutverki að gegna sem m.a. er ætlað að tryggja samræmi. Þá er í 12. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða kveðið á um stýrihóp sem hafi umsjón með framkvæmd tilfærslunnar. Eitt af verkefnum hans verður að hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðra einstaklinga á landsvísu.

3. Rekstrarupplýsingar þurfa að vera aðgengilegar.

Í 2. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til reglugerðarsetningar þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmd eftirlits og upplýsingaskyldu sveitarfélaga. Nefndin telur því að þar verði unnt og skuli setja reglur sem tryggja að rekstrarupplýsingar séu aðgengilegar og séu með samræmdum hætti.

Í 7. gr. er ákvæði sambærilegt 53. gr. gildandi laga þar sem gert er ráð fyrir að þjónustu- og rekstraraðili, sem gerður hefur verið þjónustusamningur við á grundvelli ákvæðis þessa, skili til hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga, sem eru viðsemjendur þjónustu- og rekstraraðila, ásamt velferðarráðuneyti og Ríkisendurskoðun, árlega ársreikningi undirrituðum af löggiltum endurskoðanda ásamt skýrslu um starfsemi liðins árs.

4. Gera verður Grósku að virku stjórntæki.

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að upplýsingakerfið Gróska gefi góða yfirsýn um málaflokkinn og verði það stjórntæki sem því er ætlað að vera. Ekki er tekið sérstaklega á þessu atriði í frumvarpinu eða samkomulaginu enda sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar. Á fundum nefndarinnar hefur komið fram að sveitarfélög nýta mörg hver sín eigin upplýsingakerfi sem þau hafa þróað og þar sem unnt er að halda heildstætt utan um upplýsingar. Munu þau gera það áfram eftir yfirfærsluna. Nefndin telur mikilvægara að upplýsingaöflun sé til staðar en að ákveðið kerfi sé notað. Þá áréttar nefndin að í reglugerð ráðherra þar sem kveðið verði á um upplýsingaskyldu sveitarfélaga verður unnt að tryggja samræmda upplýsingagjöf til ráðuneytisins.

5. Tryggja þarf samræmi þjónustunnar.

Líkt og þegar hefur komið fram telur nefndin mikilvægt að þjónusta sem veitt er sé sambærileg í ljósi ólíkra þarfa einstaklinga. Gæta þarf þó að ákveðnu samræmi í þjónustu að því leyti að eitt sveitarfélag bjóði ekki upp á lakari þjónustu en annað og er leiðbeinandi reglum ráðherra ætlað að tryggja ákveðin lágmarksviðmið hvað þetta varðar. Þá er í 2. gr. kveðið á um að ráðherra skuli hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Áréttar nefndin mikilvægi þess að slík viðmið verði sett hið fyrsta.

6. Endurskoða verður starfsemi svæðisráða og trúnaðarmanna.

Þegar hefur verið farið yfir athugasemdir Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar og telur stofnunin að svæðisráðin séu víða óvirk og hið sama megi segja um trúnaðarmenn sem starfa á vegum svæðisráðanna. Með fyrirliggjandi frumvarpi eru svæðisráðin lögð niður. Trúnaðarmenn munu heyra undir ráðherra og er í frumvarpinu kveðið á um að hann ákveði fjölda þeirra. Nefndin telur mikilvægt að þar til ný löggjöf um réttindagæslu fyrir fatlað fólk verði sett verði trúnaðarmannakerfið styrkt.

Nefndin leggur til breytingu sem miðar að því að víkka hlutverk trúnaðarmanna auk þess sem því er eindregið beint til ráðherra að trúnaðarmenn verði nægilega margir til að sinna lögbundnum skyldum sínum og tryggja rétt fatlaðs fólks. Nefndin leggur auk þess til breytingu sem miðar að því að flýta framlagningu frumvarps um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þá eru gerðar í frumvarpinu breytingar á eftirliti með þjónustu við fatlaða þar sem innra eftirlit verður í höndum sveitarfélaga en ytra eftirlit hjá ráðuneyti. Nefndin brýnir þó mikilvægi þess að flýta því eins og kostur er að koma á fót eftirlitsstofnun með velferðarþjónustu.

7. Móta verður reglur um hámarksbiðtíma.

Ekki er gert ráð fyrir reglum um biðtíma í frumvarpinu enda taka sveitarfélögin við þjónustunni með þeim biðlistum sem eru til staðar. Þó segir í athugasemdum við frumvarpið að gert sé ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga að ríkissjóður leggi til framlög sem ætlað er að nýta í þróun á notendastýrðri persónulegri aðstoð til að eyða biðlista eftir þjónustu við fatlað fólk. Nefndin telur ljóst að stefnt sé að því að eyða biðlistum. Mikilvægt er þó að sett séu skýr viðmið og markmið um hvernig ná eigi slíku fram og telur nefndin slíkt eiga heima í framkvæmdaáætlun þeirri sem fylgja skuli þingsályktunartillögu um stefnumótun í málaflokknum.

8. Fjárveitingar byggist á reglulegu mati á þjónustuþörf.

Byggt er á samræmdu mati við mat á þjónustuþörf sem nýtist jafnframt við samræmda kostnaðargreiningu á þjónustu við fatlaða einstaklinga. Gert er ráð fyrir sérstakri deild í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem tryggja skal að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga endurspegli kostnaðarmun vegna mismunandi fjölda fatlaðra íbúa og ólíkra þjónustuþarfa þeirra. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða er í 12. gr. um stýrihópinn tiltekið að m.a. skuli vinna að útfærslu jöfnunaraðgerða og hafa umsjón með samræmdu mati á þjónustuþörf fatlaðs fólks á landsvísu.

9. Tryggja þarf að unnt sé að meta mögulegan ávinning af flutningi málaflokksins.

Ríkisendurskoðun bendir á að til að unnt verði að meta faglegan og fjárhagslegan ávinning flutningsins að þremur árum liðnum þurfi að skilgreina mælikvarða og liggja þurfi fyrir mat á núverandi stöðu. Nefndin telur að verkefnahópur um yfirfærsluna hafi þegar kortlagt stöðu málaflokksins fyrir yfirfærslu. Þá er kveðið á um það í b-lið 34. gr. frumvarpsins að ráðherra skipi samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem ætlað er að vera ráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar. Einnig er lagt til að nefndin hafi umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk ásamt því að gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar, eftir því sem ástæða þykir til. Er þetta í samræmi við 12. gr. samkomulagsins þar sem stýrihóp um tilfærsluna er falið sama verkefni. Gert er ráð fyrir að nefndin starfi fram til þess að mati á yfirfærslu málaflokksins verði lokið eða til loka árs 2014. Ljóst er að samráðsnefndin eða stýrihópurinn mun vera í stöðu til að meta ávinning af flutningi málaflokksins og er stýrihópnum falið samkvæmt 12. gr. samkomulagsins að leggja reglubundið mat á framkvæmd og árangur tilfærslunnar. Þá er í breytingartillögu nefndarinnar um þingsályktun ráðherra um stefnumótun og framkvæmdaáætlun kveðið á um að þar komi skýr forgangsröðun verkefna, markviss framkvæmdaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Nefndin telur því að þessari ábendingu Ríkisendurskoðunar hafi verið mætt en áréttar mikilvægi þess að samráðsnefndin, þ.e. stýrihópurinn, verði skipuð sem fyrst.

Flutningur á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið í undirbúningi. Sú umræða hófst fyrir 18 árum. Nú er komið að þessari mikilvægu yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna og það er því mjög brýnt að vel takist til. Sveitarfélögin hafa metnað til að gera vel og fatlað fólk sem þjónustunnar nýtur á að vera eðlilegur hluti af samfélaginu og þeirri nærþjónustu sem öllum íbúum sveitarfélaga stendur til boða.

Átak þarf að gera í aðgengismálum fatlaðra og þar liggur ábyrgð ríkisins áfram. Miklar væntingar eru um að í kjölfar yfirfærslunnar og endurskoðunar laganna um málefni fatlaðs fólks verði mannréttindi þess til sjálfstæðs lífs tryggð. Því er það á ábyrgð allra sem að málinu koma í framhaldinu að svo megi verða og er eftirlitshlutverk Alþingis með málaflokknum því mjög mikilvægt.