139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um hvort skattleggja beri niðurfellingu skulda fyrirtækja. Nú er verið að kynna nýja leið þannig að skuldir verða 100% af eignum félaga. Ríkið ætlar að bæta um betur og skattleggja niðurfærsluna þannig að þá verður eigið fé fyrirtækjanna aftur neikvætt. Samkvæmt hlutafjárlögum eiga forráðamenn fyrirtækja sem eru með neikvætt eigið fé að fara til skiptastjóra og biðja um gjaldþrotaskipti eða nauðasamninga þannig að þessi skattlagning skemmir stórkostlega fyrir þeirri skuldaniðurfærslu sem nú á að fara út í á lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég segi nei.