139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[10:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði í þessu flókna frumvarpi um málefni nýsköpunarfyrirtækja og ég vona að nýsköpun hér á landi verði sýndur meiri sómi hér eftir, að málefnum þeirra verði ekki troðið inn í bandorm sem er 58 greinar að lengd og sem fékk einungis hálfan mánuð í umfjöllun Alþingis. Það er ekki til sóma og ekki til þess fallið að efla nýsköpun í landinu því að eins og hv. þingmenn sem talað hafa á undan hafa sagt, eru fjölmörg mál sem við þurfum að skoða sem snerta eflingu nýsköpunar í landinu og það er ekki hægt að vinna málið með ásættanlegum hætti með því verklagi sem viðgengst á þingi undir forustu ríkisstjórnarflokkanna. Ég tek því undir þau orð að þessi mál, þ.e. nýsköpunarþáttinn, þarf að skoða miklu betur.