139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

atvinnuleysistryggingar og málefni aldraðra.

339. mál
[12:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Frumvarpið er í tveim meginþáttum, annar er lenging á atvinnuleysisbótatímabili úr þremur árum í fjögur ár tímabundið. Við styðjum það að sjálfsögðu en þetta er afleiðing af helstefnu ríkisstjórnarinnar sem býr til atvinnuleysi alla daga og vinnur ekki að því að skapa atvinnu eða láta atvinnu myndast. Það styðjum við af illri nauðsyn.

Hitt atriðið er að fólk fái ekki atvinnuleysisbætur nema það sé atvinnulaust meira en 30%. Þarna er verið að eyðileggja það góða kerfi sem menn tóku upp og það mun ekki spara ríkissjóði gjöld vegna þess að fyrirtæki munu þá segja fólki 30% upp í staðinn fyrir 20%. Atvinnuleysistryggingasjóður þarf þá að borga 30% í staðinn fyrir 20%, sem er 50% meira þannig að ég greiði eindregið (Forseti hringir.) atkvæði gegn því.