139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um það frumvarp sem við ræðum hér. Ég átti ekki von á miklum umræðum, þ.e. breytingu á lögum um fjarskipti frá árinu 2003, og hefði ekki gert það nema út af því að mér finnast þau ummæli ekki makleg sem komu frá einum fulltrúa í samgöngunefnd, Sigurði Inga Jóhannssyni, sem sat fundi nefndarinnar þegar við ræddum þetta og ákváðum að fara þessa leið, því að það var full samstaða um að fara með málið í þennan farveg. Það var ekki ætlunin að keyra það í gegn með einhverju offorsi, það stóð aldrei til heldur var full samstaða um að setja það fram með þessum hætti. Það var enginn ágreiningur í nefndinni um það, það var enginn ágreiningur um málsmeðferðina og mér finnst hún bera vitni um nýja tíma og þau vinnubrögð sem við ætlum að tileinka okkur jafnvel í fleiri málum en gert hefur verið hingað til.

Ég held að þetta sé ágætisleið sem samgöngunefnd hefur ákveðið að fara hvað þetta varðar í stað þess að ljúka málinu með hraði og eins og auðvitað hefur verið gert í sambærilegum málum árum og áratugum saman. Eins og oft áður náðist í þessari ágætu nefnd fín samstaða um lausn á máli og ég held að við ættum að taka okkur vinnulagið til fyrirmyndar sem hefur tíðkast í samgöngunefnd við lausn ýmissa mála í öðrum nefndum. Enn sem komið er hefur ekki verið afgreitt mál í ágreiningi úr nefndinni, hvað svo sem síðar kann að verða á þessu kjörtímabili.