139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

svar við fyrirspurn.

[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að beita sér fyrir því að þetta mál verði rætt í sölum þingsins. En ég hóf mál mitt hér á því, og ég held að þetta eigi ágætlega við undir liðnum um fundarstjórn forseta, að hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir að beita sér fyrir því í orði að þetta ferli verði opið og gagnsætt og ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á að sú skoðun forsætisráðherra mundi aðeins vara í 10 mínútur, en hæstv. forsætisráðherra hefur núna skipt um skoðun. Og ég ætla ekkert að rifja upp allar þær fyrirspurnir sem þáverandi hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið með gegnum tíðina, m.a. um ríkisbankana í gamla daga. Það er aukaatriði.

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að tala um nein smáatriði, ég er ekki að tala um afskipti stjórnmálamanna, hér er verið að tala um verð á fyrirtækjunum sem voru einkavædd yfir í Framtakssjóðinn. Ég hélt að það væri samhljómur (Forseti hringir.) milli okkar forsætisráðherra þegar hún sagði að ferlið eigi að vera opið og gagnsætt. (Forseti hringir.) Hvernig getur það verið opið og gagnsætt þegar við vitum ekki verðið?