139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að á það megi fallast að tímafrekari stjórnunarstörf muni lenda á forseta Hæstaréttar, hver sem hann er hverju sinni, þá tekur það hugsanlega meira af hans tíma þann tíma sem hann er í embætti, hvort sem það eru tvö ár eða fimm ár. Það hefur ekkert með embættistímann að gera, kjörtímabilið að gera. Það hefur bara með það að gera hvernig hann skipuleggur störf sín innan þess kjörtímabils, hvort sem það er eitt ár, tvö ár, fjögur ár eða fimm ár. Það þarf enga lagabreytingu til þess að forseti Hæstaréttar á hverjum tíma verji meiri tíma í stjórnsýslustörf og minni tíma í dómstörf, það þarf enga lagabreytingu til þess. Það þarf ekki að lengja kjörtímabil forseta Hæstaréttar til þess að hann skipuleggi starfið innan réttarins þannig að hann geti sinnt forsetastörfunum frekar en dómstörfum.

Í mínum huga er aðalatriðið það að í Hæstarétti eiga að sitja jafnsettir dómarar. Það eru ákveðin verkefni sem einhver verður að sinna sem forseti. Það finnst mér að þeir eigi að láta ganga á milli sín. Mér finnst fimm ár bara býsna langur tími í þessu sambandi. Eins og ég hef rakið hér og við getum rætt frekar síðar í dag eða í allsherjarnefnd finnst mér lenging kjörtímabils ekki réttlætast af auknum starfsskyldum sem forseti Hæstaréttar þarf að sinna hverju sinni eða á hverjum tíma.