139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er um margt sammála sumu því sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar en á hinn bóginn er ég líka mjög ósammála öðru. Ég er sammála honum í því að það er vandi hér á landi hvað það er auðvelt fyrir fyrirtæki að verða stór á markaði og ég er sammála honum í því að það er erfitt að fyrirtæki geti orðið stór á mörgum mörkuðum, ég held að það sé rétt hjá mér að hann hafi talað um það. Ég er hjartanlega sammála honum í því að það er vandræðamál og sérstakt vandamál í litlu landi eins og Íslandi vegna þess að þetta gerist frekar hér en annars staðar.

Mín skoðun er hins vegar sú að það frumvarp sem við ræðum hér sé fyrsta skrefið í því að koma í veg fyrir að fyrirtæki verði stór á mörgum mörkuðum, þ.e. að koma í veg fyrir að þau verði óþolandi stór og misnoti aðstöðu sína á einum markaði.

Hv. þingmaður nefndi líka að í Bretlandi þar sem er til ákvæði sambærilegt því sem við ræðum hér nota menn ekki slík ákvæði án þess að rannsóknir liggi fyrir. Það er lagt hér til. Þess vegna er einnig lagt til að samfara þessum breytingum verði fjármunir þeir sem Samkeppniseftirlitið hefur til ráðstöfunar auknir, einmitt til þess að þeir geti rannsakað markaði og skoðað og athugað hvort hætta sé á að þar séu fyrirtæki orðin of stór. Ég held að við séum sammála um það, við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, að það er ekki gott ef fyrirtæki eru of stór á markaði og hætta á að þau misnoti aðstöðu sína.

Í umræðum um þetta frumvarp, bæði í dag og fyrir jól, hafa þingmenn lagt mikið út af þessum miklu valdheimildum. Þingmennirnir gera mikið úr því líka að það sé mjög óskýrt hvernig heimilt er að nota þessar heimildir. Ég er algjörlega ósammála því að það sem hér er lagt til geri allt miklu óskýrara en hlutirnir eru í dag

Í 16. gr. samkeppnislaga eins og þau eru núna stendur, með leyfi forseta:

„Samkeppniseftirlitið getur gripið til aðgerða gegn:

a. samningum, skilmálum og hvers konar athöfnum sem brjóta í bága við 10., 11. og 12. gr. […]“

Í frumvarpinu segir í a-lið 2. gr., með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „10., 11. og 12. gr.“ í a-lið 1. mgr. kemur: bannákvæði laga þessara, sáttir eða ákvarðanir sem teknar hafa verið samkvæmt þessum lögum.“

Hvað er verið að segja? Nú á að standa í lögunum að í staðinn fyrir 10., 11. og 12. gr. eigi að standa: bannákvæði laga þessara, sáttir eða ákvarðanir sem teknar hafa verið samkvæmt þessum lögum.

Bannákvæðin eru þarna enn. Þá standa eftir sáttir eða ákvarðanir sem teknar hafa verið samkvæmt þessum lögum. Væntanlega er það þá svona óskiljanlegt. En þetta þýðir einfaldlega að hafi fyrirtæki brotið gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins eða brotið sátt getur eftirlitið breytt fyrri fyrirmælum. Þetta er meira að segja skýrara en verið hefur vegna þess að í úrskurði nr. 6/2007 komst áfrýjunarnefnd samkeppnismála að þeirri niðurstöðu að Samkeppniseftirlitið gæti breytt skilyrðum fyrir því að heimila samruna ef forsendur hefðu breyst og skilyrðin tryggðu ekki lengur virka samkeppni.

Í samræmi við þennan úrskurð er með þessu frumvarpi gefin almenn lagaheimild til að breyta fyrirmælum ef þau eru afbökuð eða sátt er brotin. Mér virðist að í þessu atriði verði lögin jafnvel skýrari fyrir þá sem eiga að fara eftir þeim en fyrir var.

Komum þá að b-lið 2. gr. frumvarpsins. Hún heimilar Samkeppniseftirlitinu að grípa til aðgerða gegn, með leyfi forseta, „aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni“.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Með aðstæðum er m.a. átt við atriði sem tengjast eiginleikum viðkomandi markaðar, þ.m.t. skipulag eða uppbyggingu fyrirtækja sem á honum starfa. Með háttsemi er átt við hvers konar atferli, þ.m.t. athafnaleysi, sem á einhvern hátt raskar samkeppni á markaði þrátt fyrir að ekki sé brotið gegn bannákvæðum laganna.“ — Svo mörg eru þau orð.

Rétt er að árétta að meiri hluti viðskiptanefndar leggur til að í stað þess að segja „raskar samkeppni“ verði notað „skaðar samkeppni“ og þá sé ákvæðið þar með hreint. Í mínum huga er þetta alls ekkert óskýrt. Í mínum huga er þetta jafnvel skýrara en það var fyrir. Og ég tel að þeir sem reka fyrirtæki skilji nákvæmlega hvaða mörk þeim eru sett með þessu orðalagi og ég verð jafnvel að segja að ég hef ákveðnar áhyggjur af hugmyndaflugi hv. þingmanna sem finnst þetta óskýrt. Það er vissulega rétt að þetta eru strangari reglur, ef svo má að orði komast, en Evrópulöggjöfin krefst. Það var nefnt í ræðum hér líka fyrir jól. Í þessu efni er Evrópulöggjöfin, eins og reyndar oft gerist með hana, lágmarkslöggjöf sem þýðir að okkur er heimilt að gera strangari kröfur og ég held, virðulegi forseti, að saga undanfarinna ára hafi kennt okkur að stundum getur verið skynsamlegt að setja strangari kröfur, sérstaklega um fyrirtæki, banka og markaði, þegar það er heimilt. Þegar Evrópulöggjöfin leyfir okkur að setja strangari löggjöf er okkur stundum hollara að gera það.

Eins og skilmerkilega er getið um í greinargerð með frumvarpinu geta samkeppnisvandamál stafað af öðru en því að fyrirtæki brjóti beinlínis samkeppnislög. Vandamálið getur einfaldlega stafað af því að yfirburðastaða fyrirtækisins skaðar samkeppni. Einnig getur háttsemi fyrirtækja á markaði skaðað samkeppni án þess að fyrirtækin fari beinlínis gegn bannreglum. Dæmi um þetta geta verið að fyrirtæki á fákeppnismarkaði samhæfa gerðir sínar þegjandi og hljóðalaust. Ég vil vitna í dæmi sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tók af lyfjamarkaðnum án þess að segja að þar eigi sér eitthvað slíkt stað. En einmitt á slíkum stórum markaði getur fólk samhæft aðgerðir þegjandi og hljóðalaust. Það er einmitt einn af kostum þeirra ákvæða sem hér eru lögð til, sem sagt fælingarmátturinn. Það skiptir máli fyrir stór fyrirtæki á markaði sem hafa mikið vald yfir viðskiptavinum sínum að eitthvað fæli þau frá því að samhæfa aðgerðir þegjandi og hljóðalaust.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að samkeppni sé besti vinur neytandans. Hún getur einnig verið, sem ég tel og að hún eigi að vera, besti vinur fyrirtækjanna. Það er þó alveg ljóst að á markaði, að ég tali nú ekki um litlum markaði eins og allir markaðir eru hér á landi, eru fyrirtækin sterkari aðilinn, ekki bara yfirleitt heldur alltaf. Þess vegna tel ég að það eigi að gera samkeppnislöggjöfina þannig úr garði að hún standi skýlaust vörð um hagsmuni neytandans. Það er einmitt það sem þetta frumvarp gerir. Fyrirtækin þurfa ekki að bera neinn kvíðboga fyrir þeirri breytingu á samkeppnislögunum sem hér er lögð til. Lögin munu engin áhrif hafa á fyrirtæki sem virða skrifaðar og óskrifaðar samkeppnisreglur.

Ég vil svo koma að því sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi líka, að málið komi aftur inn í nefndina. Nú er formaður nefndarinnar ekki hér og varaformaður einnig vant við látinn. Ég sit í nefndinni og mun sannarlega leggja áherslu á að það fari fram eins og til stóð að málið kom aftur til nefndarinnar eftir þessa umræðu.