139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hafi hv. þingmaður átt við ákveðið samráð Evrópusambandsríkja í utanríkismálum þá er það alveg rétt að slíkt samráð er fyrir hendi. Þannig má segja að Evrópusambandsríkin hafi skuldbundið sig hvert gagnvart öðru til að móta ekki stefnu út fyrir það samráð nema sérstakar forsendur séu fyrir hendi. Vissulega mundi það að einhverju leyti dempa möguleika þingmannsins og fleiri af hans tagi til þess að móta utanríkisstefnu sem væri mjög ólík þeirri sem við höfum haft hingað til eða þeirri sem nágrannar okkar reka.

Gagnvart norðurslóðum er það að nefna að ég held að hagsmunir okkar fari mjög saman við hagsmuni flestra Evrópusambandsríkja í því efni. Það má rifja það upp, og þarf ekki að nefna ræðu hæstv. utanríkisráðherra til þess, að á þeim vettvangi sem við einkum störfum að norðurslóðamálum, þ.e. innan Norðurskautsráðsins, erum við í sérstöku bandalagi um þessar mundir við tvö Evrópusambandsríki, nefnilega Svíþjóð og Finnland. Þau ríki eru í þeim hópi sem stórveldin, sem standa reyndar utan Evrópusambandsins, eru að reyna að þrýsta út úr samráðsvettvangi um norðurslóðir. Það var því eiginlega ekki hægt að nefna óheppilegra dæmi af hálfu þingmannsins um þetta efni en það sem hann vildi einmitt nefna um mismunandi hagsmuni Evrópusambandsríkjanna og Íslendinga á norðurslóðum.