139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:17]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, sem þegar er orðin ansi löng, með löngu máli um frumvarp sem við ræðum hér um breytingu á samkeppnislögum. Ég vildi þó kveðja mér hljóðs í ræðustól þingsins og lýsa yfir stuðningi við málið. Hér er vissulega um mjög víðtækar heimildir að ræða, auknar heimildir til Samkeppniseftirlitsins, en ég held að við verðum að treysta því að það kunni með þær að fara, rétt eins og við treystum ökumönnum til að stöðva á rauðu ljósi. Ég held að þessi tímapunktur í lífi þjóðarinnar þar sem fer fram mikil uppstokkun í atvinnulífinu og fyrirtæki skipta um eigendur, sé einmitt rétti tíminn til að setja slíkar heimildir og lögfesta þær, til þess m.a. að skipta upp fyrirtækjum en þó ekki endilega til að nota þær heldur til að gefa þann tón sem við viljum heyra í viðskiptalífinu og sýna vilja þingsins um hvernig við viljum að atvinnulífið þróist. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.