139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hljótum að fagna því, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að Íslendingar skuli ekki vera hættir að fjölga sér. Það hlýtur að vera áhugamál okkar beggja að það haldi áfram, (Gripið fram í.) að menn hætti ekki að sinna því svo við deyjum ekki út, þessi þjóð.

Ég vil nefna eitt dæmi um hvers vegna ég er ekki alveg sammála Sjálfstæðisflokknum um ágæta tillögu þeirra, svo ég svari hæstv. ráðherra, en það varðar lausn vandamála t.d. skuldugra heimila. Ég er enn þá á þeirri skoðun að það eigi að fara almenna leið. Ég tel að þar hafi stjórnvöld, lífeyrissjóðir, bankar, sá hluti samfélagsins sem enn hefur ekki sleppt þar klónni algjörlega eða losað hana, brugðist skuldugum heimilum með því að vilja ekki fara í almennar aðgerðir.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki staðið sig gagnvart fólkinu að því leytinu til. Verið er að skerða fjármuni til að greiða niður og jafna húshitunarkostnað fólks á landsbyggðinni, t.d. fólks sem býr á Vestfjörðum þar sem störf hafa tapast, því miður. Verið er að auka álögur á flutningsaðila en það eykur útgjöld heimila á landsbyggðinni sem þurfa að sækja vörur og þjónustu frá höfuðborgarsvæðinu. Það eru því ýmis atriði, frú forseti, sem við getum talið upp fyrir hæstv. ráðherra.

Inntakið í ræðu minni var að það er mjög mikilvægt að Alþingi haldi áfram að fjalla um málefni heimila og fyrirtækja. Gleymið því ekki að það eru enn þá þúsundir heimila og fyrirtækja sem enn hafa ekki fengið lausn vandamálum sínum og við því þarf að bregðast sem allra fyrst.