139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög leitt að sitja undir því að fulltrúar Hreyfingarinnar skuli væna hér einhverja þingmenn um að vera með aðdróttanir í þeirra garð og Wikileaks. Það er alveg ljóst að hér var um mjög skipulagðan verknað að ræða, (Gripið fram í: Nú?) nánast reyfarakennda atburðarás. Og það er Morgunblaðið sem ber af þessu fréttir í morgun og það er það sem nefndi til leiks að lögregluna gruni að Wikileaks eigi þarna aðgang að. Það eru ekki þeir þingmenn, ég eða hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem tóku það upp hjá sjálfum sér.

Það er líka vitað að Julian Assange, sem er forsvarsmaður Wikileaks, var hér á ferðinni á þessum tíma, á skrifstofum sem gestur Hreyfingarinnar. Það liggur fyrir, það er ekki verið að segja neitt nema staðreyndir málsins og maður er að vitna hér í fréttir. (ÁI: Aðdróttanir.) Þetta eru engar aðdróttanir. (Gripið fram í: Aðdróttanir …) Nei, þetta eru engar aðdróttanir, í þessu felst ekki neitt. Ég sagði fyrr í þessari umræðu … [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) Þetta er greinilega viðkvæmt mál. Ég sagði fyrr í þessari umræðu að það þyrfti að rannsaka málið frekar til þess að fá botn í þetta.

Hvernig komast menn inn á læstar skrifstofur í Alþingi? Hvernig komumst við inn? Það er ekki nema menn eigi erindi við þingmenn. (Gripið fram í.) Það kemst enginn inn nema eiga erindi við þingmenn. Við þurfum að fara í gegnum margar læstar dyr til að komast inn á þessar skrifstofur. (Gripið fram í: Hvaða þingmenn?) (Gripið fram í: … réttlæti.) Það kemur í ljós hér að rannsókn er mjög ábótavant. Hverjir voru yfirheyrðir? Ég er þarna í þarnæstu skrifstofu, ekki var talað við mig um þetta mál.

Það er mjög áhugavert að heyra hér viðbrögð ákveðinna þingmanna, Álfheiðar Ingadóttur og Marðar Árnasonar, sem sagði mér m.a. að halda kjafti í fyrri umræðu um málið án þess að forseti sæi nokkra ástæðu til þess að víta þingmanninn fyrir slíkan málflutning. (Gripið fram í: … sagði halda munni.) (Gripið fram í: Halda munni.) Já, það er sama og að halda kjafti, að segja mönnum að halda munni.

Hér verðum við að spyrja okkur hvort það sé (Forseti hringir.) eitthvað fleira á ferðinni. Er þetta eina málið sem hæstv. forseti hefur orðið vitni að? Er þetta eina málið af þessum toga sem er haldið frá þingmönnum (Forseti hringir.) viljandi? Rannsóknin er í molum, ábyrgð forseta þingsins er mikil og, virðulegi forseti, ég verð að segja það í fullri alvöru að ég tel að hæstv. forseti (Forseti hringir.) verði við þessar aðstæður virkilega að skoða stöðu sína, hvort (Forseti hringir.) hún sé það rúin trausti hjá þingmönnum í dag, eftir að hafa haldið á málum (Forseti hringir.) sem raun ber vitni, að hún þurfi að endurskoða hlutverk sitt hér.