139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra kærlega fyrir þessa ræðu og stuðningsyfirlýsinguna. Hún er mikilvæg, hún sýnir það sem ég benti á í ræðu minni, að þetta mál er þverpólitískt. Við verðum að passa okkur að fara ekki í einhverjar flokkspólitískar línur með þetta, ég held reyndar að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, þetta er þverpólitískt og á ekki að snúa að pólitík.

Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra sagði, það eru álitamál sem þarf að ræða. Ég kom ekki að í andsvari mínu við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varðandi niðurstöðu starfshópsins frá því í júní sem birtist þó ekki fyrr en í gær og varðandi álit siðfræðiráðs Læknafélagsins frá því í júní líka að ég hef unnið markvisst að þessum málum í tvö og hálft ár. Það hefur ekki verið almenn umræða um þau fyrr en núna. Ég hef fundið það við hverja fyrirspurn sem ég hef lagt fram, við málþingið þegar skýrslan kom út, þegar eitthvert parið auglýsir eftir staðgöngumóður að umræðan blossar upp en svo deyr hún út aftur. Ég hef haldið því fram að þetta sé ekki mál sem verði almennt og altalað í samfélaginu en verð þó að játa að ég hef að vissu leyti haft rangt fyrir mér. Þetta mál núna varðandi Jóel á Indlandi hefur gert það að verkum að það er miklu almennari umræða um þetta og afstaða tekin af miklu stærri hóp í þjóðfélaginu en ég átti von á að yrði. Ég fagna því vegna þess að þá tel ég að við séum búin að uppfylla þau skilyrði og mæta þeim áhyggjuefnum sem Alþingi hafði á sínum tíma þegar það tók afstöðu (Forseti hringir.) til að heimila þetta ekki nema að undangenginni almennri umræðu í samfélaginu. Hún fer fram núna.