139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef eins og aðrir fylgst náið með umræðum um staðgöngumæðrun frá því það orð fór fyrst að heyrast í íslenskri tungu en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft mjög sterkar skoðanir á því. Ég hef hins vegar dáðst að þrautseigju hv. 1. flutningsmanns, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, sem frá árinu 2008 hefur margoft tekið málið upp í sölum Alþingis. Með fyrstu fyrirspurn sinni fyrir tveimur, þremur árum hratt hún af stað vinnu við athugun á siðferðilegum, læknisfræðilegum og lagatæknilegum atriðum þessa máls, en þau eru eins og við vitum og hér hefur verið komið inn á allnokkur.

Það er auðvitað stór ákvörðun fyrir konu að ganga með barn fyrir aðra konu, hvort heldur það er gert af fórnfýsi eða gjafmildi eða hvaða orð við viljum svo sem hafa yfir það sem hér er lagt upp með, þ.e. staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þegar svo er liggur fyrir vilji og upplýst ákvörðun þeirrar konu sem gerir sér fyllilega grein fyrir því að barnið sem hún gengur með verður ekki hennar barn eftir fæðingu heldur afhendir hún það móður þess, hvort heldur sú kona hefur lagt til eggið eða ekki.

Því miður er önnur og dapurlegri hlið alþekkt á staðgöngumæðrun sem kristallast í því að staðgöngumæðrun er nú orðin svokallaður vaxandi „iðnaður“ í þróunarlöndum. Á Indlandi hefur allt frá árinu 2002 verið heimilað að ganga með barn fyrir aðra konu í hagnaðarskyni. Þetta hefur leitt til þess að konur í þróunarlöndum, fátækar kúgaðar konur, hafa verið neyddar til þess að ganga með börn fyrir aðra með boðvaldi eða vegna ofríkis eiginmanns sem á þeim slóðum er talinn eiga konuna og líkama hennar og hann skrifar undir pappírana og tekur við peningunum fyrir meðgönguna. Þetta er auðvitað skýringin á því að menn tala um að verið sé að kaupa og selja börn.

Það er jafnvel enn svartari hlið á þessu. Hún er sú að í þessum löndum starfa einnig dólgar sem gera út á staðgöngumæðrun með mansali og halda jafnvel heilu kvennabúrin með konum annars staðar frá sem eru neyddar til þess að ganga með börn fyrir annað fólk og dólgurinn hirðir peningana fyrir. Þetta er ekki ókeypis. Þetta er fjárplógsstarfsemi sem gerir út á óskir, vonir, væntingar og örvæntingu fólks sem ekki getur eignast eða gengið með börn sem það þó þráir svo mjög að eignast.

Vegna frumkvæðis hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur hefur þetta mál nú þegar verið skoðað ítarlega í stjórnkerfinu. Það kom í minn hlut sem heilbrigðisráðherra að taka fyrst við áfangaskýrslu vinnuhóps um það og síðan að fá niðurstöður í hendur í lok sl. sumars og fylgjast með ráðstefnu sem haldin var um málið í fyrra. Í þeirri skýrslu kemur fram að álitið sé að kannski fimm pör eða einstaklingar mundu notfæra sér þetta á ári hverju hér á landi. En eins og hv. 1. flutningsmaður nefndi var ekki mælt með því í niðurstöðum skýrslunnar að Ísland bryti ísinn — yrði fyrst Norðurlandanna til þess að leiða í lög ákvæði sem heimila staðgöngumæðrun. Ég gerði svo sem ekki athugasemd við niðurstöðuna þá en vissi að hv. 1. flutningsmaður mundi taka málið aftur upp í þinginu.

Þá ber svo við þegar málið er komið hér á dagskrá að ég hef skipt um skoðun. Ég er orðin ein flutningsmanna að þessari tillögu og eindreginn stuðningsmaður þess að staðgöngumæðrun verði lögheimiluð hér á landi og að Ísland verði fyrst Norðurlandanna til þess að leiða slíkt í lög. Hvað kom til? Jú, mál sem hér hefur verið til umræðu í tengslum við þessa þingsályktunartillögu. Það er dapurleg staða lítils drengs og foreldra hans á Indlandi sem varð til þess að sannfæra mig um að einmitt hér á landi höfum við samfélag sem getur öðrum samfélögum betur búið lagalega umgjörð um staðgöngumæðrun þannig að réttindi allra hlutaðeigandi séu tryggð og virðing borin fyrir þeim; réttindi barnsins til að þekkja uppruna sinn og ættir, réttindi meðgöngumóður og fjölskyldu hennar og réttindi verðandi foreldra. Ég vil vegna máls þessa drengs segja að það eru líka tugir Norðmanna suður á Indlandi sem hafa beðið þar frá því snemma á síðasta ári, sex, átta mánuði, með börn án þess að komast lönd né strönd með þau. Af því má ljóst vera að þetta er orðið viðtekið úrræði í okkar norræna samfélagi. Lausnin getur ekki verið fólgin í því að slást um einstaka börn eða í einstaka tilvikum heldur hlýtur að verða að taka á þessu heildstætt.

Ég tel sem sagt að við eigum að brjóta ísinn. Við eigum að vera sporgöngumenn. Við eigum að setja hér lög eins og lagt er upp með í þingsályktunartillögunni þar sem rauði þráðurinn er virðing fyrir lífinu og að koma í veg fyrir skuggahliðar staðgöngumæðrunar sem eru kúgun kvenna, mansal og fjárplógsstarfsemi, eins og ég hef rakið. Ísland er lítið og upplýst samfélag. Við höfum alla burði til þess að gæta vel að þeim siðferðilegu, lagalegu og læknisfræðilegu álitaefnum sem þarf að taka á. Við höfum tekist á við þau í öðrum málum. Við höfum nú þegar lögleitt öll helstu nýmæli í tæknifrjóvgun sem í boði eru önnur en staðgöngumæðrun. Nú síðast, eins og bent hefur verið á, var heimilað með lögum nr. 55/2010 að kona gæti fengið bæði gjafaegg og gjafasæði við tæknifrjóvgun — sem sagt að engin erfðafræðileg tenging væri við meðgöngumóður, sem er nákvæmlega það sama og hér er verið að ræða um.

Frú forseti. Ég tel að við höfum stóru sögulegu hlutverki að gegna. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um að því fyrr sem þetta mál fái afgreiðslu hér þeim mun fyrr fáum við lagaramma inn í þingið um staðgöngumæðrun. Það er von mín að slíkur lagarammi geti verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir og þar með getum við líka lagt lóð á vogarskálar þess að útrýma kúgun kvenna og sölu á líkama þeirra til þess að ganga óviljugar með barn fyrir aðra.