139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

kröfur LÍN um ábyrgðarmenn.

[14:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég deildi þessari undrun með hv. fyrirspyrjanda þegar mér bárust til eyrna fregnir af þessari tilhögun hjá lánasjóðnum fyrir ríflega tveimur vikum. Í kjölfarið sendi ég stjórn lánasjóðsins tilmæli þar sem ég óskaði eftir því að þau mundu skoða það að breyta þessu. Það má færa rök fyrir því, eins og hv. þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni, að námsmönnum sem eru á vanskilaskrá sé gert að sækja sér ábyrgðarmann en ekki að þær reglur eigi við um þá sem hafa leitað sér greiðsluaðlögunar.

Stjórn sjóðsins tók þessi tilmæli til skoðunar á sínum síðasta fundi og hefur ákveðið að fylgja þeim, þ.e. að þetta verður ekki látið gilda um þá námsmenn sem hafa sótt um greiðsluaðlögun. Sú breyting verður afturvirk þannig að nokkrum tugum námsmanna sem fengu erindi þess efnis að þeir þyrftu ábyrgðarmann og voru í þessu ferli verður gerð grein fyrir því að þetta eigi ekki við um þá nema þeir séu beinlínis á vanskilaskrá.

Athygli mín var vakin á málinu af námsmanni í gegnum tölvupóst og ég lít svo á að við höfum brugðist við því.