139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að hv. þingmaður hafi í engu svarað því sem ég lagði til og ekki einu sinni gælt við hugsunina — því að ég er náttúrlega að hugsa út fyrir boxið — vil ég benda á að plássið, káetan, á sjónum er ekki ódýrt. Það mætti örugglega verðleggja það á minnst 10 þús. kr. á dag og svo eru alls konar hlutir eins og fjarskipti. Sjómenn þurfa að borga fyrir að hringja í land. Það mætti láta útgerðina borga símtölin, nákvæmlega eins og opinberir starfsmenn fá greiddan síma. Síðan mætti, eins og ég gat um áðan, láta sjómennina borga hlut í launum kokksins og þá erum við farnir að tala um mjög stóran kostnað, einmitt við fæðið. Hvað ef maður borgar það með dagpeningum? Fá menn ekki borgað fæðið þegar þeir borða á hótelum úti í heimi? Ég veit ekki betur og ég er bara viss um að sjómenn væru miklu betur settir. Ég er nefnilega vinur sjómanna. Það vill svo til. Ég hugsa í lausnum fyrir sjómenn þannig að þeir geti fengið jafnt og allir aðrir en akkúrat jafnt og allir aðrir. Ég vil ekki mismuna fólki eftir stéttum gagnvart skattalögum.