139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Maður er eins og illa gerður hlutur í þessari umræðu sjálfstæðismanna. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni en hún er engu að síður skemmtileg og ljóst að ýmsir hafa talað sem hafa meiri þekkingu á málefnum sjómanna en sá er hér stendur, svo það sé tekið fram áður en menn fara í andsvör út af kunnáttuleysi.

Ég vil segja í upphafi að við eigum að skoða þetta mál, sem ég er meðflutningsmaður á, vandlega. Ég treysti því að efnahags- og skattanefnd fari vandlega yfir öll rök með og á móti því að þessi leið verði farin, að sjómenn njóti sérstakra kjara. Það geta verið málefnaleg rök, vísindaleg rök og réttlætisrök fyrir því.

Þegar ég stend á bryggjunni og fylgist með sjómönnum, karlmönnum aðallega en það hefur sem betur fer aðeins breyst, koma upp úr bátum sínum og skipum þá dáist ég að þessu fólki sem leggur líf sitt og limi í hættu til þess að draga björg í bú fyrir þjóðina, skapa gjaldeyri fyrir mig og aðra landkrabba sem varla þorum um borð í Herjólf hvað þá annað. En það kann að vera að maður herði sig upp í að fara einhvern tíma í alvörutúr.

Ég dáist alltaf að þessu fólki. Ég þekki marga sjómenn, það hafa verið sjómenn í fjölskyldunni, og ég velti því fyrir mér að það hlýtur að þurfa sérstaka karaktera til að stunda þessa vinnu fjarri heimilum, fjarri ástvinum og leggja jafnvel líf sitt í hættu. Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki rétt að þessar hetjur njóti ávaxtanna og fái vel greitt fyrir vinnuna sem þeir leggja fram fyrir þjóðina? Er það ekki eðlilegt?

Laun sjómanna sveiflast til og frá, jafnvel meira en laun annarra á Íslandi svo við tökum dæmi um það sem stendur okkur næst. Er þá nokkuð óeðlilegt þegar sveiflurnar eru jafnmiklar og þær geta verið hjá þessari stétt að hún njóti sérkjara sem tekur tillit til starfsins að draga fisk úr sjó og færa á land? Veittur hefur verið afsláttur í gegnum tíðina vegna þess að menn vildu viðurkenna þessar staðreyndir sem ég hef þulið upp, viðurkenna að þetta væri ólíkt öðrum störfum. Ég held að við alþingismenn eigum ekki að draga úr viðurkenningunni þegar fólk þarf einna mest á henni að halda. Sjómenn og þeir sem vinna í fiski hafa nóg að gera. Sjómenn draga fisk úr sjó, við seljum hann og fáum gjaldeyristekjur. Það er nú einu sinni þannig að sjávarútvegurinn skapar meiri hlutann af gjaldeyristekjum okkar. Er ekki allt í lagi að verðlauna fyrir það? Ég bara spyr.

Það er hægt að telja upp ýmis mál. Ég get þó ekki, frú forseti, annað en nefnt eitt atriði sem tengist þessu óbeint. Ég get ekki sleppt tækifærinu að furða mig á því hvernig Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess sem tilheyra sjómannastéttinni halda á málum núna þegar kjarasamningar eru lausir. Hverjir gæta hagsmuna sjómanna og fiskverkafólks? Hvernig stendur á því að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sendir frá sér digurbarkalegar yfirlýsingar og gagnrýnir viðsemjendur fyrir að halda sjávarútveginum á lofti og lætur þannig líta út að það sé gert til þess að þjónkast kálfum innan LÍÚ? Afsakið orðbragðið, frú forseti.

Það er ekki þannig. Alþýðusamband Íslands hlýtur að þurfa að standa í lappirnar fyrir sjómenn, fyrir fiskverkafólk, fyrir rafvirkja, fyrir smiði, fyrir verslunarfólk, fyrir tölvunarfræðinga og aðila sem hafa atvinnu af sjávarútvegi. Það getur ekki verið að Alþýðusamband Íslands og miðstjórn ASÍ, sem í eiga sæti fulltrúar sjómanna meðal annarra, séu dottin í þann fúla pytt að verða hluti og handbendi ríkisstjórnarinnar sem mér sýnist ASÍ vera orðið. Ég trúi því ekki.

Ég þekki ágæta menn innan félagsskaparins sem ég talaði um og ég trúi því ekki fyrr en ég sé að þeir hafi tekið þátt í að lýsa því yfir að verið sé að fórna hagsmunum sjávarútvegs- og launafólks í ASÍ með því að vilja ekki gefa eftir þá kröfu að sátt náist um sjávarútveginn. Alþýðusamband Íslands á að standa alveg brjálað og fara út um víðan völl og segja: Það verður að ná sátt í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Það er rétt, hv. þingmaður, það er búið að ná sátt. Gerð hefur verið tilraun til að skapa sátt. Það er búið að leggja hana til. Hvers vegna fer Alþýðusambandið, sem átti fulltrúa í sáttanefndinni, ekki fram og segir: Þetta verður að vera svona? Við verðum að leysa verkefnið um málefni sjávarútvegsins því það eru hagsmunir okkar fólks. Það eru meiri hagsmunir Alþýðusambandsins og þeirra sem þeir vinna fyrir en manna innan LÍÚ að sátt náist um sjávarútveginn. Það eru fyrst og fremst þeirra hagsmunir.

Ég trúi að fáir þingmenn ef nokkur hafi stórar áhyggjur af hinum hræðilegu LÍÚ-mönnum sem ég veita varla hverjir eru. Af hverju er umræðunni snúið svona upp? Þetta snýst um miklu stærri mál en það. Það er vegna þess að pólitísk forusta ríkisstjórnarinnar og pólitísk forusta Alþýðusambandsins, sem er reyndar náskyld pólitískri forustu ríkisstjórnarinnar, vilja hafa þetta svona. Þeir vilja hafa sjávarútveginn í óvissu og þess vegna er málið dregið fram með þessum hætti.

Frú forseti. Þetta er algjörlega ólíðandi og óþolandi. Maður veltir fyrir sér hvort þeir sem eru í forsvari fyrir Alþýðusamband Íslands þurfi ekki að hvetja almenna launagreiðendur og félagsmenn ASÍ til að standa upp og tala við þetta fólk. Ég veit um útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem veitir 250 manns atvinnu. Það þýðir að a.m.k. 250 aðrir hafa atvinnu af þessu fyrirtæki, ef við gefum okkur að eitt starf í sjávarútvegi leiði af sér annað starf. Það getur verið hærra, það getur verið aðeins minna. Hvað haldið þið að margir starfsmenn fyrirtækisins og þeir sem hafa óbeina atvinnu heyri undir starfsemi Alþýðusambands Íslands? Hvað haldið þið að þeir séu margir? Ég mundi spá því, án þess að hafa hugmynd um það, að þeir væru 80–90%. Ég leyfi mér að segja það. Það er með ólíkindum að forusta Alþýðusambandsins skuli taka þennan pól í hæðina.

Frú forseti. Það ekki síst þess vegna sem við alþingismenn viljum halda fast í sjómannaafsláttinn, það er enginn að gæta hagsmuna sjómanna.