139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[14:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki í stuttri ræðu að fara í neinn umkenningarleik, hverjum sé um að kenna eða hvar ábyrgðin liggi sérstaklega. Við stöndum frammi fyrir verkefni sem við þurfum að leysa. Verkefnið er það að við þurfum að tryggja að sú ákvörðun sem Alþingi tók, að láta kjósa til stjórnlagaþings, standi og að við vinnum vinnuna þannig að ekki falli skuggi á og ekki verði ástæða til að dæma hana ógilda eftir næstu kosningar. Þess vegna eigum við að ganga úr skugga um það að öll ákvæði laga séu algjörlega uppfyllt og skýr, að framkvæmdin verði hnökralaus o.s.frv.

Ákvörðun um að breyta stjórnarskrá þjóðar er ekki dægurmál, við megum ekki líta svo á að þó að komið hafi hnökrar á framkvæmd í þetta skipti þýði það að þar með sé allt verkefnið upp í loft. Það er alls ekki þannig, frú forseti. Við eigum ekki að heykjast á því að koma þessu stjórnlagaþingi á og við eigum ekki að líða neinn hringlandahátt í því efni. Við eigum að standa að þessu eins og við best getum og klára málið.

Lýðræðið kostar og þær 200 milljónir rúmar sem ætlað er að fari í þetta eru miklir peningar en sett í samhengi við mikilvægið og fyrir framtíð þjóðarinnar getur það varla talist svo að þarna sé um einhverjar verulegar fjárhæðir að ræða. Við setjum peninga í dægurmál eins og söngvakeppnir og íþróttaleiki og finnst ekkert um það. En þegar kemur að stórmálum eins og framtíð heillar þjóðar, framtíðinni til næstu 100 ára og hvernig hún á að stjórna sér þá veltum við fyrir okkur peningum.

Mig langar, frú forseti, að setja þetta í annað samhengi. Það kostar um 100 tonna þorskkvóta að endurtaka kosningarnar. Það eru nú öll ósköpin, 100 tonn. Er það stór reikningur, er það til of mikils mælst ef við setjum það í það samhengi, ef við áttum okkur bara á því hversu gríðarlega mikilvægt verkefnið er, að það megi kosta eitthvað smávegis? 100 tonn af þorskkvóta er vissulega mjög mikið fyrir litlar útgerðir en fyrir heilt samfélag sem byggir þar að auki tilveru sína á fiskveiðum og nýtingu auðlindanna er það ekki mikið. Ég hvet eindregið til þess, frú forseti, að við tökum okkur saman í andlitinu, höldum aðrar kosningar um þetta þing og búum þannig um það (Forseti hringir.) að sómi verði að, (Forseti hringir.) kjósum okkur stjórnlagaþing og fáum nýja stjórnarskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)