139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

stefna varðandi framkvæmdir.

215. mál
[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mikilvægt er að horfa til atvinnumálanna. Það eru öryggismálin fyrst og fremst sem hafa verið í forgrunni. Ég gat þess í fyrri ræðu minni að Vegagerðin hefur unnið að því að fækka einbreiðum brúm, fyrst og fremst til að efla öryggi á vegum, um 10–15 á hverju ári og heldur þeirri vinnu áfram.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hefur verið á brattann að sækja í byggingariðnaði. Okkur ber að horfa til þess. Þar hefur verið horft til aðgerða sem eru atvinnuskapandi og mannaflafrekar, t.d. hafa viðhald á byggingum og skattaívilnanir markvisst verið innleiddar til að örva slíka starfsemi. Hún er mjög mannaflafrek.

Þegar við skilgreinum tilkostnað og mannaflafrekar framkvæmdir megum við ekki einblína á tilteknar lausnir heldur verðum við að horfa vítt yfir. Þó þetta séu mannaflafrekustu framkvæmdir í vegakerfinu þarf að horfa víðar. Ég horfi á viðhald í opinberum byggingum og skattaívilnanir sem stuðla að viðhaldi á öðrum sviðum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Það er aldrei of mikið rætt um leiðir til að draga úr atvinnuleysi í landinu og efla öryggi í samgöngukerfinu.