139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér entist ekki heil ræða til að leiðrétta þann misskilning á grundvallaratriðum sem kom fram í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi er það alrangt að ég hafi haldið því fram að ekki væri hægt að fara með þetta mál fyrir dómstóla. Ég hef þvert á móti sagt að það væri hægt og ég hef ekki skotið mér undan því að segja hug minn í því efni. Ég hef líka sagt að ég telji að það geti leitt til óhallkvæmrar niðurstöðu fyrir Ísland. Ég hef meðal annars vísað í þau orð formanns Sjálfstæðisflokksins, sem féllu 5. desember 2008, að menn yrðu að velta fyrir sér áhættunni sem tengist samningaleiðinni.

Nú liggja fyrir fjárlaganefnd fjölmörg álit margra lögfræðinga. Flest hníga að því að veruleg áhætta sé fólgin í að fara með málið fyrir dómstóla. Þeir sem hafa setið í samninganefndinni og verið hvað krítískastir á málið frá upphafi, tveir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, eru báðir á þeirri skoðun. (Gripið fram í.) Nákvæmlega rétt. Hv. þingmaður hefði átt að horfa á ÍNN í gær. Þar kom þetta skýrt fram.

Í öðru lagi finnst mér það skjóta skökku við þegar hv. þingmaður segir að þetta flan ríkisstjórnarinnar hafi kostað íslensku þjóðina hundruð milljarða. Var það ekki fulltrúi Framsóknarflokksins sem sagði um Icesave 3 að sameiginlegi leiðangurinn sem þjóðin fór í, við skulum segja undir forustu Indefence, hafi sparað þjóðinni hundruð milljarða? Eru það ekki fulltrúar stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni sem hafa lagt mat á kostnaðinn? Þetta er allt saman vitleysa sem hv. þingmaður sagði.

Það var rangt að Finninn sem ég vísaði til væri frá Evrópusambandinu. Ég sagði að hann væri formaður mannréttindahóps Evrópuráðsins. Hann komst að sömu niðurstöðu, (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður les Morgunblaðið, sem ég veit að hún gerir stundum. (Forseti hringir.)