139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gengst við öllum mínum fyrri ræðum. Eins og hv. þingmenn muna þá tók ég ekki til máls nema einu sinni í fyrstu tveim lotum Icesave-málsins. Ég hef lítið tjáð mig um það mál. Ég hef þó heldur sótt í mig veðrið á seinni stigum þess, m.a. til að segja það skýrt að ég tel að stjórnarandstaðan hafi skipt miklu máli varðandi niðurstöðu málsins. Ég hef frá upphafi sagt að ég telji að endurheimtur verði meiri en 100% af höfuðstól. Ég leyfi mér að segja að þegar upp verður staðið munu Íslendingar ekkert þurfa að greiða, þá er ég ekki bara að tala um höfuðstólinn. En það mun væntanlega koma í ljós áður en málinu lýkur.

Ég ítreka að ég hef aldrei sagt að ekki sé hægt að fara með málið fyrir dómstóla. Ég tel að áhættan sem því fylgi sé of mikil. Áhættan hefur snaraukist eftir því sem líkurnar á endurgreiðslu af hálfu Íslands hafa minnkað. Það liggur ljóst fyrir að það er mat stjórnarandstöðunnar á Icesave 3 að upphæðin sem við þurfum hugsanlega að greiða sé miklu lægri, stjórnarandstæðingar hafa talað um að hún verði hundruðum milljörðum lægri. Ég er sammála því mati. Af því leiðir að áhættan við að fara með málið fyrir dómstóla, nú er ég að tala um Icesave-málið, eykst í línulegum tengslum við það. Það liggur í augum uppi.

Að því er varðar málið sem hér er rætt þá vildi ég koma ákveðnum sjónarmiðum, fyrir hönd þeirrar ríkisstjórnar sem ég og einn flutningsmanna sátum í, á framfæri. Ég tel sjálfsagt að skoða þetta og ef í ljós kemur að hv. flutningsmenn hafa rök fyrir sínu máli þá á að sjálfsögðu að gera þetta. Þingið kemst að því og það verður ekki neinu valdi beitt til að svæfa málið. Þetta er hagsmunamál allra, ekki síst ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Koffort hennar mundi þyngjast mjög ef leiðangurinn yrði farsæll og sigursæll.