139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjaldan hef ég efast jafnmikið og núna um að hæstv. utanríkisráðherra sé góður í stærðfræði. Fyrst segir hann að eigur Landsbankans séu rúmlega 100% en þorir samt ekki með málið fyrir dómstóla því hann telur eigur þrotabúsins svo litlar að áhættan við að tapa málinu fyrir dómstólum aukist. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg svona röksemdafærslu en hæstv. utanríkisráðherra verður að eiga það við sig. Það er nefnilega svo, eins og ég fór yfir áðan, að það er nánast engin áhætta við að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn. Þegar ekki eru til lög að dæma eftir er málinu vísað frá eða málinu vísað til gagnaðila. Það er helber aumingjagangur að ganga ekki þá leið að fara fyrir EFTA-dómstólinn. Hvað getur verra gerst en að við verðum dæmd til að greiða lágmarksinnstæðutrygginguna í stað þess að taka þetta á okkur bara sisvona eins og ríkisstjórnin ætlar að gera?

Nú er það viðurkennt að líklega verður það svo að við þurfum aldrei að greiða meira en þessa lágmarkstryggingu. Þessu vill ríkisstjórnin ekki taka á vegna þess að hún vill ekki spilla sambandinu við Evrópusambandið.

Ég skil ekki hvernig hægt er að leggja það á eina þjóð í Norðurhöfum, sem býr yfir miklum og eftirsóknarverðum auðlindum, það sem ríkisstjórnin leggur til, án lagaákvæða, að borga þessa skuld. Er það vegna samviskubits? Er það vegna eftirsjár eftir útrásina? Þessum spurningum verður ríkisstjórnin að svara. Hvaða mórall er það að ríkisstjórnin leggi til að við sitjum uppi með Icesave-skuldina? Ég fagna hins vegar þessari þingsályktunartillögu. Nú látum við Bretana finna fyrir því.