139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

227. mál
[18:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki er undarlegt þótt hér sé talsvert rætt um Icesave, sem til stendur að ræða á morgun, í tengslum við þetta mál. Leiða má að því líkur og styðja mál sitt með nokkuð sterkum rökum að hefði verið varist frá fyrsta degi af mikilli hörku bæði í þessu máli sem og Icesave-málinu væri staða beggja mála með öðrum hætti en hún er í dag, því svo sannarlega hefur margoft komið í ljós í samskiptum ríkja á milli að standi menn á sínu af mikilli hörku og verji sinn lagalega og siðferðilega rétt hljóta menn meiri virðingu þeirra viðsemjenda sem við er að eiga en ella.

Þó að vissulega sé þakkarvert að hæstv. utanríkisráðherra hafi tekið þátt í þessari umræðu í dag er líka eftirtektarvert að hann er eini stjórnarliðinn sem það hefur gert, og kannski má nefna að á þessari þingsályktunartillögu sem öllum flokkum bauðst að vera með í er líka eftirtektarvert að þar er enginn stjórnarliði. Af þeim 14 þingmönnum sem þar eru að meðtöldum 1. framsögumanni, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, eru allir þingmenn Framsóknarflokksins utan eins, allir þrír þingmenn Hreyfingarinnar og þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Það kom fram í umræðu í dag hjá formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að komið hefði fram á fundi Evrópuráðsins fyrir nokkrum dögum að sú nefnd sem þar fór með þetta mál, undir stjórn finnsks þingmanns, og hafði verið beðin að kanna hvort það væri ekki brot á mannréttindum og fleiri lögum hvernig Bretar komu fram við Íslendinga með beitingu hryðjuverkalaganna, hefði komist að því að af tveimur ástæðum ætti að hætta þeirri rannsókn og leggja fram skýrslu um þetta fyrir Evrópuþingið. Annars vegar vildu menn ekki blanda sér í það ef málið kæmi hugsanlega til dómstóla og hins vegar var það mat Finnans að trúlega væri heimild eða lagarammi Breta svo rúmur að þeir hefðu mátt beita Íslendinga hryðjuverkalögum samkvæmt breskum lögum.

Það sem skortir og er eftirtektarvert er að þar kemur auðvitað fram um leið að þrátt fyrir að mjög margir, og meira að segja breskir ráðherrar í seinni tíð, hafi viðurkennt að þetta hafi bæði verið siðlaust og rangt og yrði aldrei gert aftur, treystir Evrópuþingið sér ekki til að velta því fyrir sér hvort bresk lög brjóti mannréttindi, brjóti lög sem ríkja í samskiptum þjóða heldur beygir sig undir valdið. Væntanlega hefur komið þar fram að Bretar og kannski stærri ríki sem eiga samskipti við okkur, m.a. í Icesave-málinu, hafi talið að hægt væri að beygja Evrópuþingið til þess að kúga Ísland áfram hvað þetta varðar.

Það er ein ástæðan fyrir því að við gengum ekki nægilega hart fram frá fyrstu stundu og reyndum að sækja rétt okkar, en það erum við að reyna í dag með þessari þingsályktunartillögu. Mér fannst tal hæstv. utanríkisráðherra vera af sama huglausa meiði og mörg önnur viðhorf sem við þekkjum hjá ríkisstjórninni, ekki síst Samfylkingunni, til samskipta við erlend ríki. Það er þó rétt sem komið hefur fram að undantekningin var þegar hæstv. utanríkisráðherra neitaði að kyssa á hönd kvalaranna og sendi bresku orrustuþoturnar heim og það er þá undantekningin sem sannar regluna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við framsóknarmenn, sem stöndum flestir að þessari þingsályktunartillögu, reynum að fá ríkisvald, ríkisstjórn á hverjum tíma, til að verjast af hörku, verja réttindi lands og lýðs. 15. október 2008, nokkrum dögum eftir hrunið og þegar Bretar höfðu beitt okkur hryðjuverkalögum, hélt þáverandi formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, ræðu þess efnis sem ég ætla aðeins að vitna í, með leyfi forseta.

„Segja má að heimsstyrjöld geisi um viðskipti og fjármagn, þannig að þetta eru erfiðir tímar sem við lifum á.“

Síðar í ræðunni segir hann:

„Ég vil í upphafi segja: Ábyrgðina, uppgjörið og sannleikann um ástæður alls þessa verður að greina. Þar verða að koma að virtir endurskoðendur, virtir lögmenn, allir flokkar á Alþingi […].

Við framsóknarmenn stóðum að setningu neyðarlaganna hér á Alþingi. Við sáum í hendi okkar, eins og ástandið var, að hér var þjóðarvoði og að skjótt yrði að bregðast við.“

Og síðar varðandi beitingu hryðjuverkalaganna segir, með leyfi forseta:

„Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina og forsætisráðherrann sérstaklega fyrir það að hafa ekki þegar snúist af fullri hörku og ákært þegar breska forsætisráðherrann og bresku ríkisstjórnina fyrir fólskulega og hatramma árás á íslensku bankana í Bretlandi, á íslenska þjóð. Þeir beittu hryðjuverkalögum þegar þeir réðust inn í Landsbankann þar vegna Icesave-innlánsreikninganna. Þeir réðust jafnframt inn í Kaupþingsbankann þar með sama hætti sem var breskur banki á EES-svæðinu í góðri stöðu og fullum rétti. Hryðjuverkalög — fáheyrð aðferð gegn lítilli vinaþjóð. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti. Hinn siðmenntaði heimur hlýtur að fordæma slík vinnubrögð.“

Það er því ljóst að frá fyrstu tíð í þessu máli höfum við framsóknarmenn verið tilbúnir til að berjast fyrir rétti landsins en ríkisstjórn þess tíma, eins og kom hér fram í umræðunni hjá hæstv. utanríkisráðherra áðan, sá ekki ástæðu til að gera það á þeim tíma, oftast að því er virðist vegna þess að menn töldu að ef þeir væru í samskiptum og samningaviðræðum yrði þeim betur tekið, þeir fengju mildilegri meðferð, sem er alrangt.

Í ræðu hv. þáverandi þingmanns, Guðna Ágústssonar, frá þessum degi, 15. október 2008, nokkrum dögum eftir hrunið, kemur jafnframt fram, með leyfi forseta:

„Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu Evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota.“

Og seinna í ræðunni segir, með leyfi forseta:

„Breska þjóðin fordæmir örugglega ráðamenn sína. Breska þjóðin veit að hér á hún vini í varpa sem í heimsstyrjöldinni opnuðu land sitt. Landhelgisstríðin voru að vísu hörð en þeim lauk með því að þjóðarleiðtogar beggja landanna hjuggu á þann gordíonshnút. Við urðum að vísu að grípa til örþrifaráða. Geir Hallgrímsson og Ólafur Jóhannesson beittu þeirri nauðvörn að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Þarf þess nú, hæstv. forseti?“

Hvað gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar? Ekki neitt. Hvað hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gert? Ekki neitt. Menn trúa því að með því að beygja sig fyrir hótunum og hræðsluáróðri þessara stóru ríkja munum við að lokum kannski fá mildilegri meðferð hjá Evrópusambandinu og ekki síst hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum Það er því miður, eins og ég hef haldið fram í máli mínu, röng aðferðafræði.

Ég vona að þessi þingsályktunartillaga, um að fela forsætisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að undirbúa málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól — ekki breskum og ekki fyrir breskum lögum eins og hæstv. utanríkisráðherra virtist halda — vegna beitingar hryðjuverkalaganna gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum, verði afgreidd sem fyrst í trausti þess, þrátt fyrir að hér séu ekki fleiri á mælendaskrá af hálfu stjórnarliðsins, að menn reyni ekki að þegja tillöguna í hel heldur taki hana upp á sitt borð og hún fái eðlilega umfjöllun. Þetta er sú leið sem við þurfum að fara, þ.e. að sækja rétt okkar með harðri hendi en ekki linkind eins og við höfum orðið vitni að á síðustu missirum.