139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er skemmtilegt að hlusta á nýjan tón sjálfstæðismanna í Icesave-umræðunni. Það er annar bragur á ræðunum nú en fyrir nokkrum mánuðum. Ræðumenn hafa keppst við að reyna að skýra af hverju það er. Það er allt í lagi þegar menn hafa sínar skýringar á því.

Við getum hins vegar verið ósammála því að nálgun sjálfstæðismanna í dag sé rétt. Nú tala ég um sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokkinn sem eina heild, ég veit reyndar ekkert hvort niðurstaðan verður samhljóða á þeim bænum. Það er gaman að heyra að allt í einu virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera farinn að axla ábyrgð á Icesave-málinu. Fyrst var talað um að það væri ábyrgðarfullt að borga ekki, heldur ættum við að fara í dómsmál. Um það má lesa í fjölmörgum ræðum. Nú er ábyrgð að borga. Er (Utanrrh.: Tryggvi …) næsta yfirlýsing frá Sjálfstæðisflokknum sú að þeir beri ábyrgð á því hvernig fór, að velta eigi skuldinni yfir á þjóðina, yfir á fjölskyldurnar og yfir á heimilin? Þeir vinnusömu munu borga þetta. Ég geri ekki ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hækka skatta, eða hvað? Ég spyr hv. þingmann þegar kemur að því að semja fjárlög og borga 200–250 milljarða á næstu árum ef allt fer til fjandans, ég leyfi mér að orða það þannig, er Sjálfstæðisflokkurinn til í að hækka skatta til þess að ná inn tekjunum sem þarf eða hvernig sér hv. þingmaður (Forseti hringir.) að það verði gert?