139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður, ég skal með ánægju ræða Evrópusambandið við þig en við skulum gera það við annað tækifæri. Það er ekkert nema hjartfólgið að gera það.

Hv. þingmaður segir að Framsóknarflokkurinn, og hann þar með, hafi allan tímann í þessu máli verið tilbúinn til að ná samningi sem fæli í sér, eins og þingmaðurinn segir, ásættanlegar byrðar fyrir Íslendinga. (Gripið fram í: Þetta …)

Þá vil ég inna hv. þingmann eftir öðru: Hvað eru ásættanlegar byrðar? Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði strax grein fyrir því þegar við hófum þennan leiðangur í desember 2008 að hann teldi ásættanlegar byrðar 150 milljarða. Nú er mér ljóst að hv. þingmanni og þingflokksformanni Framsóknarflokksins þykir það of mikið, en hvað taldi eða telur hv. þingmaður ásættanlegar byrðar úr samningi? Eru það 20 milljarðar, eru það 50 milljarðar, eru það 80 milljarðar? Ég held að það væri gott til þess að ræða sig að einhverri niðurstöðu að við gætum áttað okkur á því hvar Framsóknarflokkurinn er, bara svona í stærðum.

Það hefur síðan vakið verðskuldaða athygli að oft er ekki gefin út flokkslína í Framsóknarflokknum, heldur hefur hann tekið það upp að leyfa þingmönnum að fylgja bara sannfæringu sinni hér í hverju málinu á fætur öðru. Þá vildi ég inna þingflokksformanninn eftir því hvort svo sé einnig í þessu máli og hvort þess megi vænta að það verði ólíkar niðurstöður í mati um hvora áhættuna eigi að taka sem einstakir þingmenn flokksins komist að eða hvort þingflokkurinn standi heill og óskiptur að einhverri niðurstöðu.