139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því hversu góðmennt er á pöllum Alþingis og ánægjulegt að sjá lýðræðislega þenkjandi íbúar landsins gera sér ferð niður á Alþingi til að hlusta á málefnalegar umræður. (Gripið fram í.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem kemur í pontu ljómandi eins og sól yfir því að verið sé að samþykkja Icesave-samningana og þingmenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins strjúka hver öðrum. Ég man reyndar eftir því rétt fyrir hrun þegar þessir tveir flokkar störfuðu saman og við bentum á að ýmislegt væri nú að gerast, þá ljómuðu þeir á svipaðan hátt. Svo hrundi allt landið. Það var ekki eins og við hefðum viljað sjá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í orð hans um að enginn kostnaður muni falla á íslenska ríkið. (Gripið fram í.) Bíðum nú við, þetta er stór og mikil yfirlýsing. Hefur þingmaðurinn gleymt því algjörlega að til stendur að borga 26 milljarða í vexti á næstu mánuðum? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði áðan: Við skulum vona að enginn kostnaður lendi á íslenska ríkinu. Þetta er til á upptöku og í sjónvarpi.

Mig langar að spyrja um mat Sjálfstæðisflokksins á því að fara ekki í dómsmál. Félagar mínir í fjárlaganefnd hafa lagt fram gott álit sem er mjög vel rökstutt fyrir utan að þeir rökstyðja ekki það mat að mikil áhætta sé fólgin í því að fara í dómsmál. Það liggja í rauninni engin gögn fyrir um það fyrir utan sjö línur lögmanna sem eru reyndar ósammála um stöðuna. Getur þingmaðurinn (Forseti hringir.) varpað ljósi á afstöðu Sjálfstæðisflokksins?