139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að nota þetta tækifæri til að leiðrétta ákveðinn misskilning sem því miður er uppi og er meinlegur varðandi svonefnd heildsöluinnlán og það hvernig skilanefnd og slitastjórn Landsbankans hafa meðhöndlað þau. Það er sem sagt akkúrat öfugt, að skilanefnd og slitastjórn Landsbankans hafa frá byrjun gert ráð fyrir því að heildsöluinnlánin, þ.e. innstæður sveitarfélaga, stofnana, samtaka og slíkra aðila, væru tekin með sem forgangskröfur og allir útreikningar á endurheimtuhlutföllum hafa byggt á því. Sú tala er reyndar nokkru lægri en flotið hefur fyrir í umræðu og mér skilst að nú sé miðað við að það séu um 145 milljarðar sem teljast til forgangskrafna í útreikningum skilanefndar. Þessu er hins vegar öfugt farið í Glitni en þau mál eru reyndar fyrir dómstólum.

Þetta þýðir að færi svo að látið yrði á þetta reyna af einhverjum, t.d. almennum kröfuhöfum, sem teldu þá hag sínum eðlilega betur borgið í því að sem minnst yrði viðurkennt sem forgangskröfur, og fengist það þannig dæmt, mundu fjárhæðir forgangskrafna lækka og endurheimtuhlutfall innstæðusjóðsins og Breta og Hollendinga, sem fara með kröfur fyrir hönd almennra innstæðueigenda, hækka. Fjárhæð af þessu tagi mundi væntanlega miðað við núverandi horfur þýða að endurheimtuhlutfallið færi vel yfir 100% og kostnaður okkar þá á málinu minnka að sama skapi.

Ég taldi nauðsynlegt að koma þessu á framfæri en ég skil hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson svo sem vel vegna þess að þessi misskilningur hefur víða verið uppi, þar á meðal í blaðagreinum.