139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[14:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi geta þess að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, skrifum hvorki undir nefndarálitið né þá breytingartillögu sem hér var gerð grein fyrir. Ég mun koma efnislega inn á það á eftir. Við tókum heldur ekki þátt í afgreiðslu meiri hluta allsherjarnefndar á málinu milli 1. og 2. umr. og höfum við bæði 1. og 2. umr. lýst efasemdum um þá leið sem hér er farin. Umræðunnar vegna er auðvitað nauðsynlegt að ítreka að við höfum ekki haft efasemdir um að það væri nauðsynlegt að bregðast við fyrirsjáanlega auknu álagi á dómstóla landsins. Við höfðum reyndar talað töluvert fyrir sjónarmiðum af því tagi fyrr á þessu þingi og raunar því síðasta líka vegna þess að við höfum metið það svo að viðbúið væri að álag á dómstólana færi stórlega vaxandi, bæði vegna fjölda einkamála af ýmsu tagi, mála sem tengjast uppgjöri á gömlu bönkunum sérstaklega, og eins vegna þess að útlit er fyrir að mál sem höfðuð kunna að verða vegna saknæmrar háttsemi í sambandi við bankahrunið eða aðdraganda þess geta farið að koma til dómstólanna. Lítið af þeim hefur sést enn þá, en það má reikna með að þau fari að koma. Þar gæti orðið, miðað við þær rannsóknir sem embætti sérstaks saksóknara hefur sérstaklega unnið að, um að ræða verulega stór, umfangsmikil og þung mál sem munu kalla á meiri vinnu og hugsanlega langa málsmeðferð fyrir dómstólum. Við höfum séð það í stórum efnahagsbrotamálum á undanförnum árum að það hefur tekið dómstóla talsverðan tíma að vinna úr þeim, sérstaklega þegar horft hefur verið til alls konar kærumála fram og til baka og mismunandi anga sem hafa komið þar inn.

Við höfum ekki efast um þörfina fyrir að bregðast við. Þær athugasemdir sem við höfum gert við efni upphaflega frumvarpsins varða fyrst og fremst það að þarna væri lögð til skipun tiltölulega stórs hóps nýrra dómara til lífstíðar vegna aukins álags sem er í raun og veru tímabundið, tekur til einhverra ára vissulega, tveggja, þriggja, fjögurra ára kannski, en verið er að skipa stóran hóp dómara til lífstíðar. Það er reyndar gert ráð fyrir að eftir 2013 fari dómurum aftur fækkandi eftir því sem dómarar láta af störfum vegna aldurs eða annarra ástæðna, en það þýðir að útþynningin, ef svo má segja, verður eftir mjög bratta fjölgun á dálítið löngum tíma. Við höfum einfaldlega velt því upp hvort heppilegt væri að ráðast í þetta svona.

Þau sjónarmið hafa áður komið fram og ætla ég ekki að fara nánar út í það hér við þessa umræðu.

Ég ætla líka að nefna að í þessum umræðum höfum við tekið undir sjónarmið sem hafa komið frá flestum eða öllum hópum lögfræðinga og embættismanna sem vinna í þessum málaflokki, Lögmannafélagi Íslands, Lögfræðingafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands og Ákærendafélagi Íslands, um mikilvægi þess að koma hér á millidómstigi. Rökin fyrir millidómstigi eru í grunninn önnur en að bregðast við því álagi sem fylgir þessum tímabundna vanda en við höfum velt fyrir okkur og velt því upp að ef ætlunin er að leggja í breytingar á þessu sviði, breytingar sem eins og ég tiltók áðan munu hafa áhrif í alllangan tíma vegna þess að það er verið að skipa fjölda dómara til lífstíðar, væri vert að gera atlögu að því að koma millidómstiginu á.

Ég get hins vegar alveg tekið undir með því sem hv. þm. Atli Gíslason sagði áðan um að vissulega mundi millidómstig ekki leysa allan þann vanda, sérstaklega ekki á fyrsta dómstigi sem aukið álag mundi kalla á. Engu að síður, fyrst farið er í þetta verkefni, teldum við og höfum talið að það væri eðlilegt að skoða þetta í samhengi og vísum auðvitað til þess að talsverð vinna hefur átt sér stað nú þegar á því sviði í sambandi við undirbúning að því leyti og ég hef á tilfinningunni að það sé engin ástæða til að mikla fyrir sér það verk að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd. Vissulega munu þær leiða til kostnaðar, en sú breyting sem við erum að leggja til mun líka leiða til kostnaðar og ég kem nánar að því síðar.

Það eru tvö atriði, hæstv. forseti, sem ég vildi tiltaka sérstaklega á þessum stað í umræðunni. Annað er að gerðar voru breytingar milli 1. og 2. umr., öllu heldur við 2. umr., samkvæmt tillögum frá Hæstarétti sem að okkar mati, mínu og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, varða ekki efnisatriði þess frumvarps sem hér liggur fyrir heldur eru um önnur atriði dómstólalaganna. Þá vísa ég fyrst og fremst til kjörtímabils forseta Hæstaréttar. Það er vissulega rétt að þarna er um að ræða reglur sem snerta innri starfsemi Hæstaréttar en engu að síður er það löggjafinn sem mótar þann lagaramma sem Hæstiréttur starfar eftir. Þegar lagðar eru til breytingar á þeim lagaramma held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu að þingið taki til umræðu þær tillögur og velti fyrir sér hvort þær eigi rétt á sér eða ekki.

Um þetta fjallaði ég nokkuð við 2. umr. og vildi bara ítreka að ég hef sterkar efasemdir um að rétt sé að lengja kjörtímabil forseta Hæstaréttar. Fyrirkomulagið hefur verið þannig um áratugaskeið, kannski frá upphafi, ég hef ekki kannað það, að dómarar við Hæstarétt hafa skipt með sér forsetadæminu. Það hefur gengið á milli þeirra og hefur auðvitað byggst á þeirri hugsun að í Hæstarétti sætu jafnsettir dómarar sem allir koma inn í réttinn með víðtæka reynslu og að forsetaembættið þar væri tímabundið verkefni sem einn dómari sinnti á hverjum tíma. Mér finnst tillagan um að lengja kjörtímabilið með þessum hætti breyta með nokkrum hætti eðli embættisins og tel að þessi tillaga hafi ekki fengið næga umfjöllun til þess að ástæða sé til að afgreiða hana eða samþykkja núna.

Ég vísa til þess að umsagnaraðilar höfðu ekki tækifæri til að tjá sig um þessa breytingu vegna þess að hún kom inn eftir að skriflegar umsagnir bárust og eftir að flestir gestirnir komu fyrir nefndina. Þegar málið kom núna aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. óskuðum við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson eftir nokkrum gestum til að fjalla um það mál en niðurstaðan varð sú að við fengum einn gest af fimm eða sex sem við óskuðum eftir. Það segir sitt um það að umfjöllunin var miklu takmarkaðri en efni stóðu til. Kannski hefði það engu breytt, ég veit það ekki. Við höfum ekki heyrt sjónarmið annarra en Dómarafélagsins um þetta sem hv. þm. Atli Gíslason vísaði til hér áðan, við höfum ekki upplýsingar um það. Þetta er atriði sem ég tel ástæðu til að gagnrýna.

Ég ætla að nefna að lokum tvö önnur atriði. Í fyrsta lagi ætla ég að víkja örlítið að gildistökunni sem auðvitað snertir efni þeirrar breytingartillögu sem hér liggur fyrir þar sem talað er um að færa dagsetningu varðandi hæstaréttardómara frá 1. janúar sem augljóslega er úrelt til 1. mars til samræmis við það sem gildir um héraðsdómarana þar sem gert er ráð fyrir að nýir dómarar hefji störf 1. mars. Við vöktum athygli á því í nefndinni og gerum það aftur hér að 1. mars er líka óraunhæf dagsetning í ljósi þess hvar við erum stödd núna í dagatalinu. Það er komið fram í febrúar. Ég get ekki skilið frumvarpið öðruvísi en svo að það sé gert ráð fyrir að hinir nýju dómarar taki til starfa á þessum tilteknu dagsetningum. Orðalag ákvæðanna gefur ekki neina vísbendingu um annað. Og það er alveg ljóst að það mun ekki nást. Þessir ágætu nýju dómarar, fimm í héraðsdómi og þrír í Hæstarétti, munu ekki geta hafið störf 1. mars. Það liggur fyrir og þess vegna hefðum við talið eðlilegra að færa þessa dagsetningu aftar þannig að löggjöfin verði þá í samræmi við veruleikann. Það sem á eftir að gerast áður en dómararnir taka til starfa er auðvitað að það á eftir að auglýsa stöðurnar. Hæfnisnefnd á eftir að fara yfir umsóknirnar, meta hæfni umsækjenda, sem mun væntanlega taka nokkurn tíma í ljósi þess að þarna er um að ræða mörg embætti á sama tíma og að öllum líkindum talsverðan fjölda umsækjenda. Síðan þarf ráðherra að komast að sinni niðurstöðu. Ég held að allir sem þekkja til þessa ferlis geti séð í hendi sér að 1. mars mun ekki nást í því sambandi. Þetta er ekki grundvallaratriði, það mun ekki valda neinum sérstökum spjöllum þó að ekki verði unnt að skipa dómarana á þeim degi sem frumvarpið kveður á um en þegar við sjáum fyrir okkur hvernig þetta verður er ástæðulaust að halda inni í frumvarpinu óraunhæfri dagsetningu. Á þetta höfum við bent.

Annað atriði sem ég vildi vekja athygli á í blálokin til umhugsunar er kostnaðarþátturinn sem ég held að þurfi að verða okkur nokkur umhugsun. Auðvitað verður að taka tillit til þeirra fjárveitinga sem ætlaðar eru til dómstólanna á fjárlögum. Formaður Dómarafélagsins lýsti því sjónarmiði í allsherjarnefnd á mánudaginn að fjárveitingar til héraðsdómstóla mundu ekki duga til að bæta þessum nýju dómurum við fyrr en í haust. Það voru upplýsingar sem komu mér nokkuð á óvart. Í sjálfu sér hefði verið ástæða til að fá sjónarmið frá t.d. dómstólaráði og ráðuneytinu um það en meiri hluti nefndarinnar taldi ekki tíma til þess.

Það má líka minna á, og ástæða er til að halda því til haga hér fyrst fjármálin koma til skoðunar í þessu samhengi, að dómstólaráð gerði töluvert alvarlegar athugasemdir við fjárhagslegt mat fjármálaráðuneytisins á fyrri stigum málsins í bréfi sem sent var allsherjarnefnd 6. desember. Við þessu þarf auðvitað einhvern veginn að bregðast. Ég er ekki að segja að það eigi að stöðva þetta mál út af því en það hlýtur hins vegar að hafa áhrif á það hvernig framkvæmdin gengur hvernig fyrir fjármununum er séð og hugsanlega þarf að samþykkja einhverjar aukafjárveitingar verði þetta frumvarp að lögum. En það er a.m.k. ekki hægt að láta þessa umræðu klárast án þess að vekja athygli á því að þarna er þáttur sem þarf að huga mun betur að. Verði þessar breytingar að veruleika með þeim hætti sem hér er lagt til mun það leiða til kostnaðar og í ljósi efasemda sem hafa komið fram um að fjárlagafrumvarpið geri ráð fyrir útgjöldum af því tagi þarf það einhverrar endurskoðunar við og ég beini því til þingmanna og um leið auðvitað innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis að taka þennan þátt til skoðunar.